Hortittur á strandveiðum

Á síðustu dögum þings geta átt sér stað undarlegir hlutir þegar þingmenn vakna upp við vondan draum og vilja vekja athygli á sér á lokasprettinum. Síðustu þingdaga fyrir kosningar verður þetta enn meira áberandi en þegar eiga í hlut stjórnarþingmenn getur þetta orðið beinlínis vandræðalegt. Þannig verðum við að horfa á tilraun Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, formanns atvinnuveganefndar Alþingis, til að skjóta inn frumvarpi um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða á sama tíma og starfsáætlun Alþingis gerði ráð fyrir að þingi væri að ljúka. Slíkir hortittir í lagasetningu gera engum gagn og vakti undrun þegar verið var að semja um þinglok. Aðkoma þingflokks Pírata er enn undarlegri, studdi framlagningu málsins án þess að vilja vera með á því. Sýndarmennskan er alsráðandi.  

Í þessu samhengi er nauðsynlegt að rifja upp að formaður atvinnuveganefndar hefur í vetur stoppað að svokallað 5,3% mál, sem fjallar meðal annars um strandveiðar væri tekið til umræðu í nefndinni.  Gekk það raunar svo langt að fulltrúar Miðflokksins í atvinnuveganefnda létu bóka í fundargerð nefndarinnar að:

,, Fulltrúar Miðflokksins í atvinnuveganefnd Alþingis harma að fulltrúar meirihlutans í nefndinni hafni því að þetta mikilvæga mál fyrir fjölmörg sveitafélög og útgerðir (Mál 418. – Stjórn fiskveiða (atvinnu, byggðakvótar o.fl.)) verði tekið til umræðu og afgreiðslu, þannig að málið geti gengið til annarrar umræðu í þingsal. ´´

Að þessu skoðuðu blasir við að æfingar formanns atvinnuveganefndar á lokametrum þingsins voru bara til heimabrúks. 

Þegar málið var lagt fram voru fimm þingmenn á því, flutningsmaðurinn Lilja Rafney Magnúsdóttir og fjórir meðflutningsmenn, þau Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Halla Signý Kristjánsdóttir.  Eftir að í ljós kom hvernig í pottinn var búið létu þrír af fjórum meðflutningsmönnum taka sig af málinu og var það „prentað upp“ eins og það er kallað í þinginu.  Eftir sátu Lilja Rafney og Halla Signý, formaður og 2.varaformaður atvinnuveganefndar, sem í vetur og vor höfðu neitað að ræða þetta mál í tengslum við það þingmál sem þó var til meðferðar í nefndinni sem þær veita forystu.  Segir það ekki allt sem segja þarf um sýndarmennskuna?

Bergþór Ólason, alþm. og Sigurður Páll Jónsson, alþm. Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi

DEILA