Hermann Siegle er nýr forstöðumaður skíðasvæðis Ísafjarðarbæjar

Hermann Siegle Hreinsson hefur verið ráðinn forstöðumaður skíðasvæðis Ísafjarðarbæjar og mun hann hefja störf nú í júní.

Hermann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði árið 2013. Hann hefur aflað sér vinnuvélaréttinda og smáskipstjórnarréttinda, lokið ýmsum námskeiðum, s.s. í fyrstu hjálp, hóp- og neyðarstjórnun ásamt áhættumatsgerð, námskeiði í stefnumótandi stjórnun með áherslu á nýsköpun, námskeiði í stafrænni markaðssetningu og í markaðsetningu á samfélagsmiðlum. Þá lauk hann flugnámi við Flugskóla Íslands árið 2017 og er með einkaflugmannsréttindi.

Hermann starfaði á skíðasvæði Ísafjarðarbæjar á árunum 2014 til 2016 í hlutastarfi og sem lögreglumaður hjá lögreglustjóranum á Ísafirði 2014 til 2015. Frá árinu 2017 til dagsins í dag hefur hann starfað sem lögreglumaður hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.

Hermann er mjög kunnugur staðarháttum, þar sem hann ólst upp í Hnífsdal.

DEILA