Heilbrigðisráðherra úthlutar 28 milljónum króna í gæða- og nýsköpunarstyrki

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur úthlutað rúmum 28 milljónum króna í gæða- og nýsköpunarstyrki til 13 verkefna. Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á verkefni sem nýtast heilbrigðisþjónustunni í kjölfar heimsfaraldurs. Verkefnin þurftu að hafa skýran ávinning fyrir heilbrigðisþjónustuna og þann hóp sem þjónustan beinist að. Styrkirnir voru veittir á sameiginlegri ráðstefnu heilbrigðisráðuneytis og Landspítala 1. júní sl. þar sem fjallað var um þróun heilbrigðisþjónustu á tímum breytinga og þar voru verkefnin sem hlutu styrki kynnt.

Frestur til að sækja um styrki rann út 22. mars síðastliðinn og barst 21 umsókn um fjölbreytt verkefni. Úthlutunarnefnd skipuð fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins lagði mat á umsóknirnar og gerði tillögu til ráðherra um styrkveitingar.

Eitt verkefni á Vestfjörðum fékk styrk.

Heildræn náttúrutengd endurhæfing á vegum Starfsendurhæfingar Vestfjarða (SEV) í samstarfi við Heibrigðisstofnun Vestfjarð hlaut styrk að upphæð 1.024.000 kr.

Um verkefnið segir að um er að ræða heildrænt náttúrutengt endurhæfingarúrræði (NEú) fyrir einstaklinga með heilsubrest tengdan ofbeldi eða áföllum. Einblínt verður á þætti sem oft á tíðum eru rótin að heilsubresti, vanlíðan og skertri starfsgetu og lífsgæðum fólks. Horft er til úrræða sem hafa skilað góðum árangri. Annars vegar Gæfusporanna sem þróað var fyrir þolendur kynferðisofbeldis og hins vegar Nátturútengda endurhæfingu, sem þróuð var í Svíþjóð fyrir fólk með streitutengdan geðrænan vanda og hefur reynst mjög árangursrík. Náttúrutengd endurhæfing hefur auk þess reynst vel fyrir einstaklinga með áfallastreitu, hefur jákvæð áhrif á heilsu og líðan fólks og flýtir fyrir bata.
Verkefnið gengur út á að þróað verður úrræði sem stendur yfir í 8 vikur, og er byggt upp sem heildræn endurhæfing með áherslu á að nýta heilandi áhrif náttúrunnar. Hún mun felast í dvöl og iðju í náttúrunni, hugleiðslu, sjúkraþjálfun, fræðslu og æfingum sem stuðla að slökun, tengingu líkama og hugar og tengingu við náttúruna. Einnig einstaklings ráðgjöf og sálfræðimeðferð er veitt eftir þörfum þátttakenda.
Unnið verður samkvæmt hugmyndafræði áfallaupplýstrar og einstaklingsmiðaðrar þjónustu og valdeflingar. Enn er Náttúruleg endurhæfing fátíð á Íslandi og hún er ekki til staðar á Vestfjörðum, en nágranna þjóðirnar eru komnar mun lengra á því sviði. Eitt af markmiðum verkefnisins er að koma á góðri samvinnu geðteymis Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, félagsþjónustu sveitarfélaga á svæðinu og Starfsendurhæfingar Vestfjarða. Leitast verður við að brjóta niður þá veggi sem oft eru milli hinna mismunandi kerfa og þær hindranir sem kunna að vera fyrir slíku samstarfi og fylla upp í þær glufur sem myndast geta milli kerfanna.

DEILA