Háskólahátíð á Hrafnseyri 2021

Á Háskólahátíð fögnum við með þeim nemendum sem útskrifast úr meistaranámi hjá Háskólasetri sem og fjar­nemum af Vestfjörðum. Háskólahátíð er þó ekki eingöngu fyrir út­skriftar­árgang, heldur líka fyrir alla fyrrverandi og núverandi nema, kennara, starfsfólk, stjórn og stofnaðila sem og aðra samstarfsaðila í gegnum tíðina. 

Formleg útskrift er frá Háskólanum á Akureyri. Háskólasetrið efnir af þessu tilefni til háskólahátíðar á Hrafnseyri þann 17. júní 2021, eins og árlega. Háskólasetur Vestfjarða býður einnig velkomna alla vestfirska útskriftar­nema til að samfagna á háskólahátíðinni á Hrafnseyri. 

Þessi tilkynning er  að sjálfsögðu send út með þeim fyrirvara að reglurnar muni leyfa samkomu eins og þessa. Eins og er mælir hins vegar ekkert á móti því að koma saman, fagna útskrift og eiga eftirminnilegan dag á Hrafnseyri. 

Við eigum alltaf nokkrar húfur með áletruðum ártölum fyrri útskriftarára.Þess vegna er þeim sem geta ekki mætt með sínum útskriftarárgangi óhætt að koma á næsta ári, eða þess vegna á einhverjum næstu árum, og geta þá fengið afhenta áletraða húfu með réttu ártali .

Staðsetningin á Hrafnseyri gefur ríkan möguleika á að uppfylla sett skilyrði um bil milli manna. Athöfnin er úti undir berum himni meðan veður leyfir. 

Von er á formlegu boðsbréfi þegar nákvæm dagskrá er tilbúin. Háskólahátíð er hluti af hátíðarhöldum á Hrafnseyri í tilefni 17. júni. Boðið verður upp á ókeypis sætaferðir frá Ísafirði á Hrafnseyri og til baka. Tillit verður tekið til flugs til/frá Ísafirði. 

Af vefsíðu Háskólaseturs Vestfjarða