Gróskuhamfarir í Skjaldfannardal

Indriði á Skjaldfönn setti innfærslu í gær um tíðarfarið í Skjaldfannardal og gróandi vorkomuna. Þá var honum sem fyrr umhugað um lömbin sem heimskautarefurinn á það til að leggjast á og ræddi um meint vanhöld á grenjavinnslu undanfarin ár. Fer ekki á milli mála að oddvitinn í Strandabyggð safnar ekki innstæðu fyrir endurkjöri á þeim bænum.

Skordýranna eflist ös,

ótal fætur tifa.

Úti á túni gróa grös.

Gaman er að lifa.

Ég man engar eins gróskuhamfarir og undanfarna sólarhringa eftir að við losnuðum við Grænlandshæðarfjandann. Hiti upp í 17-18 stig , þrjá daga í röð með góðri rigningu ,tún urðu hvanngræn á mettíma og sömuleiðis úthagi og birkihlíðar. Fuglar leika við hvern sinn fingur, geitungar sjúga af ákefð safa úr tréverki og girðingarstaurum til að búa út sín hýbíli, Jötunuxar í yfirstærð spóka sig í kindaskít fjárhúsanna þar sem tvær síðustu ærnar eru nú nýbornar.Allir aðrir ferfætlingar búsins una sér nú úti á góðri beit og í dag fjarlægði ég allar gjafagrindur og rúlluleyfar úr þeim.Hef ekki heyrt tófugól tvö kvöld í röð og eftir að ég fékk frænda minn Gunnar Arnarsson verkfræðing og tölvumann í lið með mér varðandi grenjavinslumál, er aðeins byrjað að sjá til sólar í þeim, því oddvitinn okkar ástsæli er jafnvel farin að ýja að því að stjórnsýsla Strandabyggðar sé ekki óskeikul varðandi grenjaleit hér, samanber þessa glefsu úr tölvupósti hanns til Gunnars að „á árinu 2020 eftir að einhver misskilningur hafi orðið um framkvæmd verksins.“

E.t.v. meira um það síðar, en nú skiftir mestu að horfa framm á veginn í þessu efni áður en farið verður að sleppa ánum með sín óvenju þroskalegu lömbum á fjall.

Sauðkindin er sál vors lands.

Sómi og prýði eigandans.

Flytur líf í fjallasal.

Færir arð um strönd og dal.