Gauti Geirsson nýr framkvæmdastjóri Háafells

Gauti Geirsson er framkvæmdastjóri Háafells.

Háafell ehf., fiskeldisfyrirtæki í eigu Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf., hefur ráðið Gauta Geirsson sjávarútvegsfræðing sem framkvæmdastjóra félagsins. Framundan er mikil uppbygging á vegum Háafells en félagið hefur stundað fiskeldi í Ísafjarðardjúpi frá árinu 2001. Háafell hefur leyfi fyrir 800 tonna eldi á laxi og regnbogasilungi í seiðaeldisstöð sinni á Nauteyri ásamt 7.000 tonna leyfi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi fyrir eldi á regnbogasilungi. Nú er eldi á regnbogasilungi á vegum félagsins á tveimur stöðum í Ísafjarðardjúpi, í Álftafirði og undir Bæjahlíð innan við Æðey. Auglýst hefur verið 6.800 tonna laxeldisleyfi Háafells í Ísafjarðardjúpi og stefnt er að útsetningu fyrstu laxaseiða í Ísafjarðardjúp snemma næsta vor.


Gauti er 28 ára Ísfirðingur og er með B.Sc. próf í sjávarútvegsfræðum frá háskólanum í Tromsø og vinnur nú að meistaraverkefni í sömu fræðum sem hann líkur næsta vor. Gauti hefur unnið fyrir Háafell frá árinu 2017 sem verkefnastjóri og þekkir því vel til reksturs og starfsemi Háafells.


Gauti er í sambúð með Elenu Dís Víðisdóttur verkfræðinema og eiga þau von á sínu fyrsta barni í sumar.

DEILA