Framsókn: rufum kyrrstöðuna í Teigsskógi

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins sagði á miðstjórnarfundi flokksins sem haldinn var um helgina að Framsóknarflokknum hefði tekist að rjúfa áratuga kyrrstöðu í ástandi samgangna á sunnanverðum Vestfjörðum, „sem eiga birtingarmynd sína í Teigsskógi. Vegavinnufólk er komið á staðinn, kyrrstaðan hefur verið rofin og við sjáum fram á stórkostlegar samgöngubætur fyrir Vestfirðinga alla.“

Í ræðu sinni sagði Sigurður Ingi að Framsóknarflokkurinn hugsi um landið allt og að flokkurinn væri sannkallað hreyfiafl í stjórnmálum.

Nefndi hann því til staðfestingar tvö dæmi sem sýndu fram á það „hvernig við náum sem flokkur, Framsókn, að rjúfa kyrrstöðu, að hreyfa við málum.“

Fyrra dæmið sem hann nefndi er samgöngusáttmálinn. „Í alltof langan tíma hefur ríkt kyrrstaða í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Það ríkti frost í samskiptum ríkisins og höfuðborgarinnar þegar kom að samgöngumálum. Og við vitum það sem eigum rætur okkar í sveitunum að langvarandi frost getur verið okkur dýrkeypt. Ég ákvað að höggva á þennan hnút og leiða saman ríkið og sveitarfélögin öll á höfuðborgarsvæðinu: við skyldum finna sameiginlega fleti, við skyldum skapa sameiginlega framtíðarsýn í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Það tókst – og af því er ég stoltur.“

Seinna dæmið sem ráðherrann vitnaði til varðar samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum og vísaði hann til átaknna um Teigsskóg sem fyrr greinir.

Þá nefndi formaður Framsóknarflokksins tvö mál sérstaklega sem byggðamál þar sem árangur hefði náðst. Annar er loftbrúin. „Afsláttur af flugfargjöldum til þeirra sem búa fjærst höfuðborgarsvæðinu er orðinn að veruleika.“ sagði hann og síðara málið er Ísland ljóstengt, „verkefnið sem á rætur sínar í lítilli grein í Mogganum árið 2013, grein sem bar yfirskriftina „Ljós í fjós“; þessu verkefni er lokið. Engin þjóð í heiminum er betur tengd en við og næsta verkefni tekur við: Ísland fulltengt.“

Formaður Framsóknarflokksins á tali við Jóhann Hannibalsson, Bolungavík.