Flateyri: svarta pakkhúsið leigt í sumar undir sýningu um skreið

Svarta pakkhúsið áður en það var flutt og viðgerðir hófust.

Ísafjarðarbær hefur leigu svarta pakkhúsið á Flateyri undir sýningu um skreið. Leigutíminn er til 1. nóvember n.k. Sett verður upp sýning í húsinu um skreið. Leigutaki er Hús og fólk. Forsvarsmaður þess er Jóhanna G. Kristjánsdóttir.

„Svarta pakkhúsið“ sem í matsgerðum ber nafnið Fiskgeymsluhúsið var byggt árið 1867 af Hjálmari Jónssyni verslunarmanni til geymslu á saltfiski og stóð fyrir aftan verslunarhúsnæði sem hann átti og rak. 1883 eignaðist Ásgeirsverslun húsið og var í eigu hennar til ársins 1918 þegar sameinuðu íslensku verslanirnar tóku við rekstrinum. Framan á húsinu er skilti þar sem ritað er bæði á íslensku og dönsku „Sameinuðu Íslensku Verzlanirnar“ og er frá þeim tíma. Í kringum 1925 eignaðist Kaupfélag Önfirðinga bæði verslunina og fiskgeymsluhúsið. Árið 1956 flutti Kaupfélagið í nýtt verslunarhúsnæði ofar í götunni og hefur Svarta pakkhúsið verið notað til ýmissa hluta síðan.

Húsið var flutt fyrir 10 árum og stendur nú við Hafnarstræti. Endurbætur hafa staði yfir síðustu ár og þeim lauk nú í ár.

DEILA