fiskeldi: hvatt til að sveitarfélög fái stærri hlut af gjaldtöku af fiskeldi

Eldiskvíar Arnarlax.

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu og Bjarni Jónsson, fiskifræðingur og bæjarfulltrúi í Skagafirði hvetja til þess að gjaldtöku af fiskeldi verði breytt og að stærri hlutur en nú er renni til sveitarfélaga. Þau eiga bæði sæti í sex manna samráðsnefnd um fiskeldi sem sjávarútvegsráðherra skipaði haustið 2019 til fjögurra ára og lögðu fram sameiginlega bókun á fundi nefndarinnar í síðustu viku.

Í bókuninni er lagt til að endurskoða núverandi gjaldaumhverfi hafna gagnvart þjónustu við fiskeldi auk þess að endurskoða reglugerð um Umhverfissjóð sjókvíaeldis og setja reglugerð um fiskeldissjóð. Vilja þau að markmið endurskoðunarinnar verði

að ákvarða undir hverju tekjunum er ætlað að standa sem og hvernig þær tekjur skiptast á milli ríkis og sveitarfélaga.

að tryggja sveitarfélögum, þar sem sjókvíaeldi er stundað, skýrar heimildir til töku gjalda af sjókvíaeldi.

að tryggja að tekjur af slíkri gjaldtöku standi undir nauðsynlegum verkefnum sveitarfélaga, þar með talið verkefnum sem ekki tengjast fiskeldi, og tryggð sé sjálfbærni hafna og samfélaga þar sem sjókvíaeldi fer fram.

að  breyta reglum um Umhverfissjóð sjókvíaeldis með það að markmiði að tryggja að rannsóknir og vísindaþekking byggist upp í nærumhverfi fiskeldisstarfseminnar.

að tryggt verði að fjármunir sem renna í sjóðinn frá fiskeldisstarfsemi muni nýtast sveitarfélögum á áhrifasvæði sjókvíaeldis sem tekjustofnar út frá skýrum úthlutunarreglum en ekki sem umsóknasjóður.

Í greinargerð með bókuninni segja þau Bjarni og Sigríður að „það laga- og reglugerðarumhverfi sem sveitarfélögin þurfa að vinna eftir vegna fiskeldis hefur haft verulega neikvæð áhrif, þar sem óeðlilegur hvati er í núgildandi löggjöf þannig að sveitarfélög keppast um að fá eldisfiski landað til sín á sama tíma og þjónustuhafnir í fiskeldi hafa litlar sem engar tekjur til að standa undir umsvifum fiskeldis. Stærstur hluti tekna sveitarfélaga kemur á löndunarstað við sláturhús sem endurspeglar ekki þá nýtingu mannvirkja og þjónustu sem eldið þarf.“

DEILA