Fasteignamat viðmiðunareignar á Vestfjörðum er 28% af matinu á höfuðborgarsvæðinu

Byggðastofnun hefur birt skýrslu Þjóðskrár Íslands um reiknað fasteignamat viðmiðunareignar á ýmsum stöðum á landinu. Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 m² að grunnfleti og 476 m³ á 808 m² lóð.

Hæst 73,3 m.kr. og lægst 20,3 m.kr.

Fasteignamat samanstendur af húsmati og lóðarmati. Heildarfasteignamat viðmiðunareignar er að meðaltali 43,3 m.kr. á matssvæðunum 96 í greiningunni en fasteignamat er mjög mismunandi eftir því hvar á landinu fasteignin er. Fasteignamat viðmiðunareignar er hæst á höfuðborgarsvæðinu eða 73,3 m.kr. að meðaltali. Utan höfuðborgarsvæðisins er fasteignamat hæst á Akranesi, á Akureyri og í Keflavík. Lægsta meðalfasteignamat landshluta í greiningunni er á Vestfjörðum 20,3 m.kr.

Þjóðskrá Íslands skiptir landinu í 96 matssvæði í 50 sveitarfélögum, þar af eru 27 matssvæði á höfuðborgarsvæðinu og 69 utan þess. Á Vestfjörðum eru 12 matssvæði.

Hæst fasteignamat á Ísafirði

Hæst er fasteignamatið fyrir viðmiðurnarhúsið á Ísafirði. Í eldri byggð, eins og það heitir í skýrslunni, er það 36 m.kr. og 32 m.kr. í nýrri byggð.

Næst Ísafirði kemur Patreksfjörður með mat upp á 21 m.kr., Þá Hólmavík 19 m.kr., Bíldudalur, Bolungavík og Tálknafjörður 18 m.kr, Hnífsdalur og Þingeyri 16 m.kr. ,Súðavík og Suðureyri 15 m.kr. og lægst er Flateyri með 14 m.kr.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!