Fallið frá lögþvingun sveitarfélaga

Meirhluti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis leggur til að fallið verði frá því að skylda fámenn sveitarfélög til sameiningar. Þetta kemur fram í áliti meirihlutans við stjórnarfrumvarpi um breytingu á sveitarstjórnarlögum. Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélag samþykkti í fyrra að óska eftir lagasetningu sem skyldaði sveitarfélög fámennari en 1000 manns til þess að sameinast öðrum sveitarfélögum og ríkisstjónin varð við því með því að leggja fram umrætt lagafrumvarp.

Strax kom í ljós mikil óánægja með þessa stefnumörkun meðal fulltrúa fámennra sveitarfélaga og þegar tekist var á um málið á nýjan leik á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga hafði stjórn sambandsins nauman sigur. Þótti þá sýnt að andstaðan væri of mikil til þess að lögþvingun væri fær leið. Óánægjan beindist einkum að því að vikið væri frá því að sameining sveitarfélaga væri byggð á samþykkt í almennri atkvæðagreiðslu meðal íbúanna og þess í stað ákveðin með boðvaldi lagaákvæðis.

Hafa staðið yfir viðræður um breytingar á frumvarpinu og náðist niðurstaða um breytingar á því á þann veg að stefnt skuli að því að lágmarksstærð sveitarfélags verði 1.000 íbúar.

Samkvæmt breytingartillögunum skal sveitarstjórn sveitarfélags sem ekki nær lágmarksstærð beri að leitast við að ná markmiðum um aukna sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þess til að annast lögbundin verkefni. Til þess að ná þeim markmiðum geti sveitarstjórn annaðhvort hafið formlegar sameiningarviðræður eða látið vinna álit um stöðu sveitarfélagsins og sameiningarkosti þess. Álitið verði kynnt íbúunum og að því loknu skal sveitarstjórn ákveða hvort hafnar skuli sameiningarviðræður. Verði ákvörðunin sú að ekki verði farið í slíkar viðræður geta 10% íbúa óskað eftir bindandi atkvæðagreiðslu um ákvörðun sveitarstjórnarinnar.

Með þessu verður tryggt að íbúarnir munu alltaf eiga síðasta orðið og sameining eða ekki sameining verður ekki nema með stuðningi þeirra.

Í álitinu skal gera grein fyrir stöðu sveitarfélagsins og sameiningarkostum og m.a. fjalla um fjárhagslega og félagslega þætti sveitarfélagsins, íbúaþróun, þjónustu þess og aðrar samfélagslegar aðstæður.

Að nefndaráliti meirihlutans standa 7 af 9 nefndarmönnum og fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna, auk Samfylkingar og Viðreisnar. Tveir fulltrúar Miðflokksins skila öðru áliti og fagnar því að horfið verði frá lögþvingaðri sameiningu smærri sveitarfélaga en leggja áherslu á að ekki skuli gerðar meiri kröfur til minni sveitarfélaga um sjálfbærni og þjónustu en almennt gerist meðal stærri sveitarfélaga.