Bæjarstjóri: Sif hefur verið beðin afsökunar

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar var beðinn um viðbrögð við afsögn Sifjar Huldar Albertsdóttur, bæjarfulltrúa og þeim ummælum hennar að stjórnsýslan hafi brugðist og hún ekki beðin afsökunar.

Svar Birgis fylgir hér :

„Í byrjun er rétt að taka fram að ekki er hægt að fjalla um innihald málsins sem spurt er um en hægt er að bregðast við hvernig á málsmeðferðinni var haldið sem vísað er til í frétt á BB.

Formleg kvörtun um einelti barst í þessu tilviki um miðjan desember s.l. frá framkvæmdastjóra Byggðasamlags um málefni fatlaðra á Vestfjörðum og var stíluð á stjórn BsVest. Framkvæmdastjóri BsVest er ekki starfsmaður Ísafjarðarbæjar en kvörtunin beindist að starfsmanni Ísafjarðarbæjar. Það var sameiginleg niðurstaða stjórnar BsVest og Ísafjarðarbæjar að setja rannsókn málsins í hendur utanaðkomandi fyrirtækis og var samið við ráðgjafafyrirtækið Attentus um að rannsaka málið og gera tillögur til úrbóta. Attentus skilaði sínum niðurstöðum í lok mars og var þar m.a. lagðar til leiðir til úrbóta sem snúa bæði að Ísafjarðarbæ og stjórn BsVest. Vinna fór strax í gang við að innleiða þessar breytingar og hluti af þeim var að leggja upp með sáttaferli milli aðila.

Svona mál eru viðkvæm og liggur í hlutarins eðli að ekki er hægt að fjalla um þetta mál í smáatriðum án þess að brjóta trúnað. Það var hins vegar lögð á það áhersla að málið yrði unnið eins faglega og eins hratt og frekast er unnt. Niðurstaðan var kynnt öllum aðilum máls þegar hún lá fyrir ásamt tillögu að úrbótum og sáttameðferð milli aðila. Auðvitað er það áfellisdómur yfir bæði Ísafjarðarbæ og stjórn BsVest að ekki hafi verið tekið á málum fyrr. Hins vegar er rétt að halda því til haga að formleg kvörtun um einelti kom ekki fram fyrr en í desember s.l. og var strax brugðist við henni.

Það er leitt að Sif Huld skuli  ekki sjá sér fært að sitja áfram sem bæjarfulltrúi, en hún hefur verið beðin afsökunar af hálfu Ísafjarðarbæjar og sjálfsagt að endurtaka þá afsökun.“