Aðalfundur Hollvinasamtaka Maríu Júlíu er á morgun

María Júlía færð til í Ísafjarðarhöfn þann 19. maí.

Aðalfundur Hollvinasamtaka Maríu Júlíu verður haldinn á morgun laugardag og í framhaldi af honum verður farið í vinnu um borð í Maríu Júlíu sem liggur núna í krikanum við horn Suðurgötu, Kristjánsgötu og Njarðarsunds í göngufjarlægð frá Edinborgarhúsinu þar sem aðalfundurinn verður haldinn.

Stofnfundur samtakanna var í mars á þessu ári og að sögn Björns Erlingssonar formanns samtakanna hefur síðan þá verið unnið að verk og kostnaðaráætlun og að undirbúa styrkjaumsóknir í sjóði til varðveislu menningarminja.

Björn segir jafnframt að: „Viðbrögð stjórnvalda hafa einkennst af hugleysi, skort á menningarlæsi og þröngsýnni byggðastefnu. Við vonumst til að geta sýnt framá að rekstur á uppgerðri Maríu Júlíu geti staðið undir sér og verið menningarleg lyftistöng fyrir strandbyggðasamfélögin sem taka þátt.“

DEILA