Þjóðgarður: Orkubú Vestfjarða gerir alvarlegar athugasemdir við friðlýsingu

Orkubú Vestfjarða gerir alvarlegar athugasemdir við tillögu að friðlýsingarskilmálum fyrir þjóðgarð á Vestfjörðum. Segir í umsögn Orkubúsins sem dagsett er 26. maí að samkvæmt skilmálunum sé engin orkunýting leyfð innan þjóðgarðsins og að auki sé óbreytt staða flutningskerfisins fest í sessi.

Orkubúið gerði athugasemdir við bann við orkunýtingu innan þjóðgarðsins í fyrri umsögn um málið frá 31.12. 2020. Frá þeirri umsögn hefur verið sagt á Bæjarins besta. Alls bárust þá 7 umsagnir. Í fyrra sinnið var óskað eftir athugasemdum um áform um friðlýsingu. Að þeim fengnum var samin tillaga um friðlýsingu og hún send út til umsagnar í febrúar. Umsagnarfrestur rann út í síðustu viku og munu hafa borist 21 umsagnir. Beðið er eftir því að fá þær frá Umhverfisstofnun.

Ekki tekið tillit til athugasemda Orkubúsins

Fram kemur í seinni umsögn Orkubúsins að greinilega hafi ekki verið tekið tillit til athugasemda þess í fyrra sinnið þegar tillagan um friðlýsingu var samin. Miðað við fundargerðir starfshópsins virðist sem umsagnirnar við áformin um friðlýsingu hafi ekki verið ræddar innan starfshópsins fyrr en í maí.

Orkubúið gerir athugasemdir við það vinnulag starfshópsins að engum utan hans hafi verið kunnugt um athugasemdirnar sem bárust við áformin um friðlýsingu þegar tillagan um friðlýsingu var samin. Bent er á að síðan eru liðnir fjórir mánuðir og engin umræða hafi farið fram um þann þátt málsins sem varðar orkunýtingu og orkuvinnslu. Til þess að bregðast við þess ritaði Orkubúið öllum sveitarfélögum bréf þann 11. maí vegna friðlýsingarskilmálanna og vakti athygli þeirra á málinu. En fyrir lá að fulkomin hætta væri á því að athugasemdir Orkubúsins kæmu ekki umfjöllunar hjá sveitarstjórnunum fyrr en eftir að frestur til athugasemda væri runninn út.

Orkukostir sem til greina koma verði í friðlýsingarskilmálunum

Það er sjónarmið Orkubúsins að nauðsynlegt sé að tilgreindir verði í friðlýsingarskilmálunum þeir orkukostir sem til greina koma innan þjóðgarðsins þar sem friðlýsingarskilmálar eru lagalega bindandi reglur sem gilda um svæðið. Verði síðar kosið að nýta þá þarf að fara í umhverfismat eins og um aðrar framkvæmdir og framhaldið ræðst svo að þeim reglum. En ef nýtingarkostirnir eru ekki tilgreindir í friðlýsingunni þá verði einfaldlega óheimilt að ljá máls á því að athuga þá kosti síðar.

Orkubúið segir í síðari umsögn sinni að verði friðlýsingarskilmálarnir óbreyttir frá auglýsingunni í febrúar sé ekki hægt að tvöfalda flutningslínu rafmagns sem eru innan þjóðgarðsins. Það verði einnig ókleift að endurnýja núverandi línur sem eru orðnar ríflega 40 ára gamlar. Það verði útilokað að vera með tvöfalda tengingu við afhendingarstað Landsnets í Mjólká.

Vísar Orkubúið til þess að í tillögunni að friðlýsingarskilmálum segi að markmið verndunarinnar sé að vernda alla árfarvegi og þar með eru öll áform um virkjun bönnuð.

Virkjun eða línur

Dregin er upp mynd af stöðunni í raforkumálum á Vestfjörðum og segir í umsögninni að aðeins séu tvær leiðir til þess að bæta afhendingaröryggið og útvega næga raforku. Báðar fela í sér að fara þarf um væntanlegan þjóðgarð annað hvort með línur eða virkjun. Eigi að flytja rafmagnið til Vestfjarða þarf nýja Vesturlínu og hún þarf að tengast Mjólkárvirkjun. Það er kostur sem er um 160 km löng lína og kostar á annan tug milljarða króna. Hinn kosturinn er að byggja 15 – 20 MW virkjun í Vatnsfirði sem mundi gefa jafnmikið öryggi eða jafnvel meira. Sá kostur kostar mun minna og framleiðir orku sem gefur af sér tekjur sem greiða niður fjárfestinguna. Hagfræðilega sé sá kostur augljóslega betri.

Krafa stjórnvalda um orkuskipti í samgöngum á sjó og í landi kallar á aukna orkunotkun á Vestfjörðum og umhverfislega séð er augljóst betra að framleiða meira af orku á Vestfjörðum en að flytja aukninguna að langa leið. Af þessum sökum verður að halda opnum möguleikum til orkunýtingar á Vestfjörðum og óskynsamlegt væri að loka fyrir hagkvæma nýtingu á svæðinu sem falla á undir þjóðgarð.

Orkubúið vill lengri frest til kynningar um umræðu

Að lokum fer Orkubú Vestfjarða fram á að veittur verði lengri frestur til umfjöllunar og könnunar á þeim þáttum sem það hefur vakið athygli á í umsögn sinni og varða orkuvinnslu og orkudreifingu innan þess svæðis sem málið tekur til.