Strandir: Þakviðgerðir á Kotbýli kuklarans

Laugardaginn 22. maí vann hópur af harðduglegum sjálfboðaliðum við að taka torfið af þakinu á Kotbýli Kuklarans í Bjarnarfirði. Veðrið var ljómandi gott og það myndaðist góð stemmning hjá hópnum. Svo var haldin veisla fyrir sjálfboðaliðana um kvöldið á Hótel Laugarhóli með Eurovision partýi á eftir.

Kotbýlið er hluti af Galdrasýningu á Ströndum og var opnað árið 2005. Í Kotbýli kuklarans er sýnt hvernig alþýðan bjó á 17. öld og hvernig allskonar kukl, verndar- og bændagaldrar, voru hluti af harðri lífsbaráttunni. Torfhúsið hefur því miður verið lokað fyrir almenningi seinustu tvö ár vegna hættu á að þakið myndi hrynja. Viðgerðirnar munu standa yfir í allt sumar. Næsta verkefni er að lagfæra timburgrindina sem var byrjuð að gefa sig og síðan þarf að tyrfa yfir á ný og endurnýja sýninguna. Galdrasýningin fékk styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða í þessar framkvæmdir og stefnt er að því að verkið klárist í sumar. Sjálfboðaliðarnir sem unnu að fyrsta verkþættinum fá okkar allra bestu þakkir fyrir dýrmæta aðstoð og velvilja.





Frá hægri: Finnur Ólafsson, Anna Björg Þórarinsdóttir, Ágúst Guðmundsson, Alexander Kuzmanic, Jamie Lee, Quentin Monnier, Magnús Rafnsson, Leifur Hauksson, Einar Unnsteinsson, Kristján Þórarinsson, Þóra Björg Hallgrímsdóttir, Guðmundur Jónsson, Gústav Þór Kristjánsson, Tjörvi Einarsson, Sveinn Þórarinsson, Haukur Sigvaldason og Ólafur Ingimundarson. Guðbjörg Guðmundsdóttir tók mynd og var ein af sjálfboðaliðunum. 
DEILA