SKYRGERÐIN – HVERAGERÐI- TÓNLEIKAR! Siggi Björns & Franziska Günther

Siggi Björns hefur síðan 1988 lifað af spilamennsku út um allar trissur. Hann er frá Flateyri og ólst upp þar eins og aðrir púkar fyrir daga dagheimila, við höfnina og í beitningarskúrum.

Síðan á unglingsárunum hefur gítarinn aldrei verið langt undan þó að það hafi lengi vel ekki verið hugmyndin að lifa af gítargutli. Siggi þvældist nokkur á um landið á vertíðum eins og svo margir gerðu á þeim tíma, á sjó eða í beitningu.
Í gegnum árin spilaði hann af og til með hljómsveitum, lengst af með hljómsveitinni  Æfingu frá Flateyri.  Fram að 1988 vann hann við beitningu og sjómennsku, síðast á togaranum Gylli ÍS.


Hann ákvað þá að prófa fyrir sér i eitt ár eða svo að lifa á þvi að spila á pöbbum. Það þróaðist útí fulla vinnu og spilerí í mörgum löndum. 1991 flutti hann til Danmerkur og gerði út þaðan nokkur ár.


Síðustu árin er hann búinn að vera í Berlín, og alltaf á ferðinni.


Síðan 1990 er Siggi búinn að spila öll sumur á dönsku eyjunni Borgundarhólmi og er enn að, enda orðinn einskonar goðsögn þar. Þar hitti hann Franzisku fyrst. Hún var þá unglingur sem var farin að reyna fyrir sér við að troða upp með gítarinn. Í gegnum árin héldu þau alltaf sambandi og þegar Siggi kom til að spila í Waren, Müritz í norður Þýskalandi, þar sem Franziska bjó, var hún alltaf dregin með á sviðið.


Franziska Günther kemur frá norðurþýska bænum Waren, og er búin gera það gott síðustu árin á þýskum sviðum (og annarstaðar i Evrópu) með sinni tónlist.


Það eru komnir tveir sólódiskar frá henni á síðustu árum fyrir utan fullt af útgáfum með öðrum tónlistarmönnum. Seinni sóló diskurinn hennar „Besser wenn der Kopf Nicht Hängt“ (Betra að vera ekki með hangandi haus), kom út fyrir tæpum tveimur árum og gerði það gott. Fékk verðlaun og viðurkenningar úr ýmsum áttum.


Til dæmis var titilagið var á topp tíu i fimm mánuði í Þýskalandi á lista fyrir sagnatónlist, en það lag sömdu Franziska og Siggi saman.


Síðustu fimm ár hafa Siggi og Franziska unnið mikið saman og spilað vítt og breytt.


Þau hafa samið þó nokkuð af efni saman, og gefið út. Í mai kemur sóló diskur frá Sigga og eru flest lögin skrifuð í samvinnu við Franzisku.


Saman hafa þau gefið út þrjá diska með allskonar efni, plús allt annað bras sem þau hafa og standa í.


Í þessari ferð til Íslands ætla þau sér að spila tónlist úr eigin smiðju og segja sögur þeim til stuðnings, þ.e.s. „Lög og loginn sannleikur“. Tveir Trúbadorar, er það dúett?


Stefnt er á huggulegheit og skemmtilegt kvöld. Eða eins og Fyrsti Vagnstjórinn á Flateyri sagði alltaf, „Margt smátt gerir lítið eitt“

Tónleikaferð þeirra hefst á morgun í Hveragerði. Að viku liðinni liggur leiðin vestur á firði þar sem þau munu halda 8 tónleika.



Tónleikar í Skyrgeðinni í Hveragerði laugardaginn 15. maí 2021 kl. 20:00


Miðasala við innganginn


Miðaverð: 2500 krónur.

DEILA