RUV slökkti á langbylgjunni

Skjaldfönn í Skjaldfannardal. Mynd: Bændablaðið.

Indri’i Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn í Ísafjarðardjúpi greindi frá því á á facebook síðu sinni á föstudaginn að ekkert hefði heyrst að landbylgunni tvo undanfarna daga. Hann segir að tveir ágætir Ísfirðingar báðir vinnandi á fjarskiftasviði, Guðmundur Hrafnsson og síðan Eggert Stefánsson hafi fengið botn í þetta mál á föstudaginn.

„Rúv. sem hefur þeirri skyldu að gegna að vera helsti öryggisvörður í almannavörnum í gegnum útsendingar sínar, slökkti á langbylgjunni á hádegi í fyrradag af þeim ástæðum að þeir væru að lækka hjá sér rafmagnsreikninginn og svo þyrftu engir lengur á langbylgjunni að halda. Ef einhverjir kvörtuðu, sem ég er búinn að gera, þá verði kveikt aftur, en ekki fyrr en eftir helgi .Nú vissi ég ekki betur en langbylgjan væri öryggisrás og það eina útvarpssamband , svo sem hér, sem unt er að ná, og eflaust er það svo víðar þó það virðist hafa farið framhjá tæknimönnum Rúv syðra. En að þeir hafi ekki manndóm í sér til að slá inn langbylgjunni fyrr en eftir helgi, það bráðblöskrar mér. Erum við að borga útvarpsgjald fyrir svona „þjónustu““ spyr Indriði.

Er ekki að orðlengja að pistillinn flaug um netið og margir létu í ljós óánægju með ákvörðun RUV. Það hafði þau áhrif að strax um miðnættið á föstudaginn sendi útvarpsstjóri mann til að slá langbygljunni inn aftur „þvert á áðurgefinn svör um að það yrði í fyrsta lagi eftir helgi og þá því aðeins að fleiri kvartanir bærust.“ skrifar Indriði.

Indriði þakkar þeim mörgu sem lögðu honum lið og segir að lokum:

„Fáir eru meiri velunnarar Rúv en sjómenn á miðum úti og við afdalabændur, en þetta skulu verða mín lokaorð að sinni.

Þetta ber að þakka, enn

þeim má fylgja línum,

að bágt er þegar breyskir menn

bregðast vinum sínum.

DEILA