Raddir vísindanna

Við erum ekki eingöngu að horfa upp á öfgafullar breytingar í veðurfari á síðustu árum heldur er sífellt að koma upp mjög öfgafull umræða um hin ýmsu mál. Í stað þess að ræða þau er öllum stillt upp í skotgrafir með eða á móti. Allt sem þú segir er ekki lengur vegið og metið heldur beinlínis skotið niður strax.

Það sem veldur áhyggjum mínum er að einmitt núna höfum við ekki efni á að ræða málin í speglaherbergjum þar sem allir eru sammála og hefjast svo handa við að skjóta niður allar ólíkar skoðanir alveg sama hver umræðan er.

Þessi skotgrafarhernaður og einsleit umræða hefur alvarlegar aukaverkanir sem eru að allir eiga að skila sinni vinnu 100% gallalausri og það eru engin mistök leyfð. Af hverju er allt í einu engin mistök leyfð nú þegar við tölum um það í sömu andránni hvað fólk lærir mikið af mistökum sínum?

Í þessu samhengi er rétt að benda á hina ýmsu eftirlitsaðila sem fá fyrirfram skýrar reglur um hvernig þeim bera að fylgja málum eftir og um það hvernig reglurnar eru. Þegar eftirlitinu er sinnt og matinu skilað ætlar allt um koll að keyra hjá hagsmunahópum á sitthvorum enda rófsins. Þarna hefst skítkastið á báða bóga og þeir sem höfðu það eina hlutverk að meta hlutina, til að tryggja að allt sé í lagi, verða fyrir svo miklu aðkasti að starf þeirra verður algerlega óbærilegt.

Hvert leiðir þetta okkur? Í fyrsta lagi er ekkert pláss fyrir mistök af neinu tagi í þessari orrahríð sem fer í gang. Í öðru lagi er hvorugur öfgahópurinn undir neinum kringumstæðum að viðurkenna hlutlaust mat því niðurstaðan hentar þeim ekki. Vel að merkja þá eru 80% þjóðarinnar þarna á milli hávaðaseggjanna og langar ekkert að blanda sér í orrustuna þó svo þeir búi yfir sanngjarnri rödd í málinu. Í þriðja lagi er kominn upp mikill ótti við orrahríðina og ósanngjarna dóma fyrir störfin að kerfið er orðið gríðarlega svifaseint og ákvarðanir liggja fyrir seint og illa.

Af hverju er ég að spá í þetta? Kannski af því að þetta er farið að bitna á framgangi mála á mjög mörgum sviðum í samfélaginu þar sem öfgahóparnir með eða á móti halda öllu í gíslingu í stað þess að málefnaleg og uppbyggileg umræða fari fram. Umræðan á Íslandi í dag er orðin svolítið eins og kór þar sem eingöngu hetjutenórarnir og ofursópranarnir fá að syngja, allir hinir fá bara að humma með.

Sú skemmtilega íþrótt að vera á öndverðum meiði í umræðum til að fá fjör í þær er orðin alveg úrelt því flokkunarferlið er svo hratt og eftir að stimpillinn hefur verið settur á er engin leið að fá nýtt hlutverk í umræðunni.

Á síðasta ári hefur komið mjög góð rödd inn í umræðuna sem hefur verið gefið mikið vægi en það er rödd vísindanna. Við höfum setið fjölda funda vísindamanna á sviði sóttvarna og síðastliðna mánuði fjölda funda á sviði jarðhræringa og eldgosa. Við höfum neyðst til að setja allt okkar traust á sérfræðinga sem hafa staðið sig með stakri prýði.

Þegar faglegri vinnu er lokið eru málin lögð til kynningar fyrir almenning og út frá þeim getum við brugðist skynsamlega við. Það væri notalegt að fara þessa leið á fleiri sviðum þar sem sérfræðingar leggja öll spilin á borðið og út frá því hefjast uppbyggilegar umræður og teknar ákvarðanir.

Það er fátt betra og skemmtilegra en faglegar umræður þar sem við reynum saman að finna sameiginlegan flöt á málunum. Við lærum mest á því að reyna að skilja þá sem eru á öndverðum meiði þó sannanlega sé það mun auðveldara að fara yfir málin í já-bandalagi þar sem skoðunum okkar er klappað lof í lófa.

Það er gríðarlega brýnt fyrir okkur sem þjóð í alþjóðlegum ólgusjó að fara ”bestu leiðina” og komast að góðu samkomulagi um hvert skal halda. Rödd skynseminnar og hinn gullni meðalvegur hefur þurft að gjalda fyrir hvirfilbil öfganna á mörgum sviðum í okkar annars góða samfélagi.

Guðrún Anna Finnbogadóttir.

DEILA