Oddviti Í listans: ekkert fiskeldi í Jökulfjörðum, a.m.k. þar til nýtingaráætlun liggur fyrir

Arna Lára Jónssdóttir, oddviti Í listans í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar vísar til samþykktar bæjarráðs frá 2016 og segir sína afstöðu samhljóða henni. Þá hafi afstaðan í samþykkt bæjarráðs verið ítrekuð í samþykkt bæjarstjórnar frá 2020.

Í bókun bæjarráðs, sem gerð var vegna umsókna sem fyrir lágu um 10.000 tonna eldi í Jökulfjörðunum, segir að bæjarráðið fagni áformum um fiskeldi í Ísafjarðardjúpi og styðji þau. En varðandi Jökulfirði segir bæjarráðið að það skori á ráðherra að sjá til þess að óheimilt verði að stunda fiskeldi í Jökulfjörðum, a.m.k. þar til nýtingaráætlun fyrir Ísafjarðardjúp og Jökulfirði liggi fyrir. Ennfremur segir að bæjarráðið leggist gegn því að fiskeldi verði stundað í Jökulfjörðum og telji algerlega óhugsandi að úthluta leyfum án þess að ítarleg vinna hafi farið fram með íbúum, landeigendum og öðrum hagsmunaaðilum.

Í seinni samþykktinni er ekki minnst á andstöðu við fiskeldi í Jökulfjörðum heldur lögð áhersla á hina ítarlegu vinnu og svo segir: því standi bókun bæjarráðs. Auk þess er farið fram á í samþykkt bæjarstjórnar að áhættumatið og burðarþolsmatið fyrir Jökulfirðina liggi fyrir svo unnt verði að taka upplýsta ákvörðun.

Arna Lára leggur áherslu á að hennar skoðun sé að gera verði nýtingaráætlun fyrir Jökulfirði og að lögð verði áhersla á samráð við íbúa, landeigendur og aðra hagsmunaaðila áður en leyfum verði úthlutað til fiskeldis í Jökulfjörðum.

Nýtingaráætlunin verði að mati Örnu Láru gerð með strandsvæðaskipulaginu sem svæðisráð hefur hafið vinnu við og Skipulagsstofnun annist framkvæmd við.

„Strandsvæðaskipulag er stjórntæki til þess að móta heildstæða áætlun um nýtingu og vernd á haf- og strandsvæðum til framtíðar, þar sem hagsmunaaðilar geta komið sjónarmiðum sínum á framfæri við mótun áætlunarinnar. Tilgangur strandsvæðastjórnunar er að stuðla að vernd og viðhaldi vistkerfa, draga úr árekstrum ólíkrar starfsemi á haf- og strandsvæðum og stuðla að betri og upplýstari ákvarðanatöku og skapa þannig grundvöll fyrir efnahagslega uppbyggingu og félagslega velferð.“

Arna Lára segir svæðisskipulagið taka á fiskeldi auk annarrar nýtingar en skipulagið verði svo samþykkt í bæjarstjórn áður en það gengur til ráðherra.

Þórir Guðmundsson, bæjarfulltrúi Í listans segir að hann sé ekki hlynntur fiskeldi í Jökulfjörðum. „Jökulfirðir eru að stórum hluta inni í friðlandi og á það að vera óraskað að mínu mati.“

Nanný Arna Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi segist vilja sjá útkomu úr vinnu við Strandsvæðaskipulaginu áður en ákvörðun verði tekin. „Ég er enn sömu skoðunar og èg hef verið síðan fyrri bókun bæjarstjórnar var gerð, ekki fiskeldi í Jökulfjörðum.“

Sigurður Jón Hreinsson er fjórði bæjarfulltrúi Í listans. Svar hans er : „Ég set mig ekki upp á móti eldi í Jökulfjörðum.​“

 

DEILA