MERKIR ÍSLENDINGAR – KRISTJÁN BERSI ÓLAFSSON

Kristján Bersi fæddist í Reykjavík 2. janúar 1938. Foreldrar hans voru Ólafur Þ. Kristjánsson skólastjóri frá Kirkjubóli í Bjarnardal í Önubdarfirði og Ragnhildur G. Gísladóttir húsfreyja.

Bræður Ólafs voru Halldór frá Kirkjubóli og Guðmundur Ingi, skáld á Kirkjubóli og Jóhanna á Kirkjubóli.

Ólafur var sonur Kristjáns, bónda þar, bróður Guðrúnar, ömmu Gests arkitekts sem er faðir Guðrúnar Sóleyjar í menningunni á RUV og Valdimars flugumferðarstjóra, föður Þórunnar, sagnfræðings og rithöfundar.

Móðir Ólafs skólastjóra var Bessa, systir Friðriku, ömmu Einars Odds Kristjánssonar alþm.

Ragnhildur var dóttir Gísla Árnasonar og Ragnhildar Jensdóttur, systur Ástríðar, ömmu Davíðs Gunnarssonar.

Systur Kristjáns Bersa:

Ásthildur skólaritari, móðir Ólafs Þ. Harðarsonar stjórnmálafræðings og Tryggva Harðarsonar, fyrrv. bæjarstjóra, og Ingileif Steinunn hjúkrunarfræðingur, móðir lögfræðinganna Gunnars og Margrétar Viðar.

Eiginkona Kristjáns Bersa er Sigríður Bjarnadóttir og eignuðust þau fjögur börn:

Freydísi,

Ólaf Þ.,

Jóhönnu sem lést 1973,

og Bjarna Kristófer.

Kristján Bersi var ungur sendur í sveit til ömmu sinnar Bessabe Halldórsdóttur á Kirkjubóli; þar gekk hann í fjölbreytt bústörf og var m.a. síðasti kvíasmali landsins. 

Á námsárum sínum starfaði Kristján Bersi við ýmislega verkamannavinnu til sjós og lands, var m.a. aðstoðarkokkur á togaranum Röðli og var nokkur sumur á vitaskipinu Herjólfi og vann við byggingu og viðhald vita.

Kristján Bersi var lipur hagyrðingur og eftir hann liggja fjölmargar lausa- og tækifærisvísur.

Kristján Bersi lauk stúdentsprófi frá MR 1957, fil. kand.-prófi frá Stokkhólmsháskóla 1962 og prófi í uppeldis- og kennslufræðum í HÍ 1971.

Kristján Bersi var blaðamaður á Tímanum 1962-64, blaðamaður og ritstjóri á Alþýðublaðinu 1965-70, kennari við Flensborgarskólann í Hafnarfirði 1970-72, skólastjóri þar 1972-75 og skólameistari þar 1975-99, er hann lét af störfum.

Kristján Bersi var formaður Blaðamannafélags Íslands 1967-68, sat í stjórn Félags háskólamenntaðra kennara og stjórn Hins íslenska kennarafélags og var formaður Félags áfangaskóla í nokkur ár. Þá var hann varaformaður Bandalags kennarafélaga 1983-87.

Kristján Bersi ritaði sögu Flensborgarskólans í 100 ár, útg. 1982. Hann skrifaði fjölda ritgerða og greina í blöð og tímarit auk þess sem hann var afkastamikill þýðandi og prýðilegur hagyrðingur.

Kristján Bersi lést 5. maí 2013.

DEILA