Magn eldisfisks hefur áttfaldast undanfarinn áratug

Magn slátraðs eldisfisks hefur áttfaldast á síðustu tíu árum og var um 40,6 þúsund tonn árið 2020.

Mest aukning hefur orðið í laxeldi sem fór úr 1.068 tonnum árið 2010 í rúm 34.000 tonn árið 2020.

Bleikjueldi hefur verið stöðugra yfir tímabilið en rúmum 5 þúsund tonnum var slátrað á síðasta ári samanborið við 2.400 tonn árið 2010.

Eldi á regnbogasilungi jókst mikið á tímabilinu og náði hámarki árið 2017 þegar 4.600 tonnum var slátrað en árið 2020 nam framleiðslan einungis 490 tonnum.

Fiskeldið fer að mestu fram í sjókvíum en bleikja er þó alin í ferskvatni. Þó fer eldi laxaseiða og regnbogasilungsseiða fram í ferskvatni áður en fiskarnir eru settir í sjókvíar.

Fjöldi launþega hjá fiskeldisfyrirtækjum hefur aukist mikið á síðustu árum og voru þeir um 488 manns árið 2019 en voru 158 árið 2010.

Tekjur fyrirtækja í fiskeldi námu tæpum 29 milljörðum króna árið 2019 og hafa ríflega þrefaldast frá árinu 2015. Áætlaðar tekjur fyrir árið 2020 eru um 32 milljarðar miðað við veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum.