Lögreglustjórinn á Vestfjörðum kærður til Ríkissaksóknara

Bátar á strandveiðum koma til hafnar. Myndin tengist ekki beint efni fréttarinnar.

Sú ákvörðun Lögreglustjórans á Vestfjörðum að fella niður kæru vegna tilkynninga síðastliðið sumar til barnaverndanefndar á norðanverðum Vestfjörðum um vanhirðu barna hefur verið kærð til Ríkissaksóknara. Kærendur, sem eru sambýlisfólk og foreldrar barnanna telja að þeir sem tilkynntu til barnaverndarnefndarinnar hafi brotið ákvæði í barnaverndarlögum með því að koma röngum eða villandi upplýsingum á framfæri við barnaverndarnefnd og vilja þau að viðkomandi sæti ábyrgð.

Lögreglustjórinn á Vestfjörðum telur í niðurstöðu sinni að ekki hafi verið ásetningur þeirra sem tilkynntu til barnaverndarnefndar að setja fram villandi eða ranga tilkynningu til barnaverndaryfirvalda. Hann telur nóg að viðkomandi hafi ástæðu til að ætla að aðstæður barns séu óviðunandi og þurfi hvorki að staðreyna aðstæðurnar né hafa rökstuddan grun um þær. Telur lögreglustjórinn því ekki tilefni til þess að hefja rannsókn og vísaði kærunni frá.

Þessi málalok Lögreglustjórans á Vestfjörðum hafa nú verið kærð til Ríkissaksóknara.

Tildrög málsins er þau að sambýlisfólk búsett á höfuðborgarsvæðinu stundaði strandveiðar á Vestfjörðum síðasta sumar. Höfðu þau með sér börn úr sínum fyrri samböndum. Barnaverndarnefndinni á norðanverðum Vestfjörðum bárust 6 tilkynningar á tveimur dögum frá tveimur einstaklingum um vanrækslu barnanna sem væru ein meðan sambýlisfólkið væri á sjó. Þeir sem tilkynntu eru fagfólk.

Fjölskylduskrifstofa Ísafjarðarbæjar brást strax við og hóf rannsókn á málinu. Því lauk fljótt án þann veg að ekki væri tilefni til að hefja könnun málsins og málið var fellt niður. Segja kærendur að þau hafi verið hvött til þess að leita réttar síns. Málið var einnig sent til barnaverndarnefndar á Höfuðborgarsvæðinu með sömu niðurstöðu, að ekki væri tilefni til að hefja rannsókn og málinu formlega lokið.

Kærendur segja að þessi niðurstaða sýni að tilkynningarnar hafi verið tilhæfulausar, efni þeirra úr lausu lofti gripið og hafi ekki átt sér neina stoð í raunveruleikanum.

Kærendurnir segja í kæru sinni til lögreglustjórans að tilkynnendurnir tveir hafi mátt gera sér grein fyrir að tilkynningar um vanrækslu sem kallaði á afskipti barnaverndaryfirvalda væri svo alvarleg ásökun, að hún yrði ekki borin fram nema viðkomandi væru fullviss í sinni sök eða hefðu a.m.k. rökstuddan grun um sakarefnið og væri þar með brot á viðeigandi ákvæði í barnaverndarlögum. Tilkynnendur hafi ekki kynnt sér málavöxtu og hafi sett fram rangar upplýsingar. Fagaðilar ættu öðrum fremur að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni í þessum efnum.

Málið hafi haft veruleg áhrif á líf þeirra og valdið hugarangri og álitshnekki og því full ástæða til þess að fara fram á rannsókn á því hvort tilkynnendur hafi gerst brotlegir við lög.

Ríkissaksóknari hefur nú kæruna til meðferðar.

DEILA