Karl Sigurðsson frá Hnífsdal varð 103 ára í gær

Karl Sigurðsson varð 103 ára í gær 14. maí. Hann fæddist árið 1918 á Ísafirði, í húsi sem kallast Rómaborg og tilheyrir í dag Sundstræti. Á fyrsta ári Karls flutti fjölskyldan út í Hnífsdal og þar bjó hann stærstan hluta ævi sinnar. Eiginkona hans var Kristjana Hjartardóttir. Hún lést árið 2013. Kristjana átti fyrir einn dreng, Grétar. Saman áttu þau fimm börn að auki – Ásgeir Kristján, Guðrúnu, Hjördísi, Sigríði Ingibjörgu og Halldóru.

Karl átti farsælan skipstjórnarferil en lengstan tíma var hann á Mími eða alls 25 ár. Eftir að síldin fór breyttist margt í útgerð á Íslandi. Hanni hafði verið meðeigandi í útgerðarfyrirtæki Mímis en ákveðið var að leggja það niður. Hann fékk greiddan sinn hlut og ákvað að fara í land.

Karl fékk stöðu sem vélstjóri í Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal, en því starfi sinnti hann í tæplega 30 ár. Auk vélstjórastöðunnar starfaði hann sem matsmaður og einnig sem vigtarmaður.

Í afmælisgrein um Karl 100 ára segja Guðlaug Jónsdóttir og Karl Ásgeirsson frá því að Karl hafi alla tíð verið vel á sig kominn líkamlega. „Sem ungur maður var hann kattliðugur, stundaði glímu um tíma og var vel liðtækur í fótbolta. Sem dæmi má nefna að hann var fyrirliði sjómanna gegn liði Vestra í leik sem spilaður var fyrsta sjómannadaginn sem haldinn var árið 1936 á Ísafirði. Þrjú mörk voru skoruð í leiknum og átti Kalli Sig þau öll.“

DEILA