Kampi: greiðslustöðvun framlengd – Ísafjarðarbær mótmælti

Rækjuverksmiðjan Kampi er stærsti notandi kalda vatnsins á Ísafirði.

Héraðsdómur Vestfjarða framlengdi á þriðjudaginn greiðslustöðvun Kampa á Ísafirði til 10. ágúst. Segir í dómnum að telja verði töluverð líkindi til þess að áframhaldandi greiðslustöðvun leiði til árangurs. Fram kemur að unnið hafi verið að fjárhagslegri endurskipulagningu í samráði við helstu lánardrottna, reksturinn hafi gengið vel og laust fé og óveðsettar brigðir hafi aukist. Með lengri greiðslufresti verði mögulegt að leggja fram tilboð til kröfuhafa um uppgjör á eldri samningskröfum. Þannig eigi félagið möguleika á að starfa áfram.

Ísafjarðarbær mótmælti

Athygli vekur að í þinghaldið sem hófst 7. maí mætti fulltrúi Ísafjarðarbæjar og mótmælti því að greiðslustöðvunin yrði framlengd þar sem Kampi hefi ekki greitt fyrir vatn sem notað var á greiðslustöðvunartímanum. Var þá þinghaldinu frestað og framhaldið 11. maí. Þá afturkallaði Ísafjarðarbær kröfur sínar og lagði fram yfirlýsingu um að þær hefðu að fullu verið greiddar. Að því gerðu voru engin andmæli við framlengingu greiðslustöðvunarinnar. Jón Guðbjartsson, stjórnarformaður Kampa sagði að ef greiðslustöðvun hefði ekki fengist framlengt blasti ekki annað en gjaldþrot við fyrirtækinu. Reikningar bæjarins hefðu því verið greiddir.

Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta var um reikninga fyrir vatnsgjald á greiðslustöðvunartímanum frá febrúar til maí að ræða. Forsvarsmenn Kampa telja sig hafa í höndum samkomulag um að verksmiðjan njóti afsláttar sem stórnotandi en fulltrúi bæjarins andmælti því í þinghaldinu.

Kampi hefur greitt síðustu ár um 11 – 12 milljónir króna á ári í vatnsgjald samkvæmt samkomulagi við bæinn um minni stórnotendaafslátt en áður hafði gilt. Segjast forsvarsmenn Kampa hafa viljað með því greiða meira til samfélagsins þar sem vel gekk í rækjuiðnaðinum. Eftir að greiðslustöðvunin kom til í vetur var farið fram á aukinn afslátt að nýju og sem fyrr segir telur Kampi sig hafa samkomulag um það. Síðustu mánuði hefur verksmiðjan ekki verið rekin á fullum afköstum vegna greiðslustöðvunarinnar með tilheyrandi minni vatnsnotkun en reikningar bæjarins hafa ekki lækkað.

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri var inntur skýringa á andmælum bæjarins við framlengingu greiðslustöðvarinnar. Hann segir í svari sínu : „Kampi stóð skil á þeim skuldbindingum sem fyrirtækið stofnaði til við Ísafjarðarbæ á greiðslustöðvunartimanum þ.a.l. lagðist bærinn ekki gegn framlengingu á greiðslustöðvun fyrirtækisins.“

Allar skuldir sem stofnað er til í greiðslustöðvun eru forgangskröfur segja forsvarsmenn Kampa og eiga því að vera tryggar greiðslur fyrir hendi og því sé erfitt að skilja mótmæli bæjarsjóðs við framlengingu á greiðslustöðvuninni.

DEILA