Ísafjörður: breyta aðalskipulagi til að færa sjóvarnargarð við Fjarðarstræti

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að heimila breytingu á aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020. Breytingin felur í sér tilfærslu á sjóvarnargarði meðfram Fjarðarstræti út í Krók vegna mögulegrar nýtingar á umframefni vegna uppdælingar við Sundabakka.

Nú líður senn að því að niðurnegling stálþilja hefjist og til þess að unnt sé að nýta umframefni þarf að gera breytingu á skipulaginu.

Jafnframt leggur nefndin til við bæjarstjórn að heimila viðauka við fjárhagsáætlun vegna verksins.

Aðalskipulagsbreytingin getur tekið allt að 6 mánuði og kostnaður orðið um 2 m.kr.

Í minnisblaði frá janúar er gert ráð fyrir því að gera fyrirstöðugarð 100 m út frá Norðurtanga og annars vegar 500 metra meðfram Fjarðarstræti og hins vegar 1000 metra og næði þá garðurinn inn í Krók. Kostnaður við garðinn er 165 m.kr og 330 m.kr. Ríkissjóður greiðir allt að 7/8 af kostnaði við undirbúning og framkvæmdir við sjóvarnir.

DEILA