Ísafjarðarbær: rekstrarhallinn 608 m.kr. í fyrra

Ársreikningur Ísafjarðarbæjar fyrir 2020 var lagður fram í bæjarstjórn í gær til fyrri umræðu. Niðurstaða í rekstri er mun lakari en upphaflega stóð til. Halli varð af rekstri A hluta, þ.e. bæjarsjóðs upp á 224 m.kr. en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir 313 m.kr. afgangi. Til viðbótar koma svo afskriftir og fjármagnstekjur og gjöld og að þeim meðtöldum var halli á A hlutanum 564 m.kr. Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir 29 m.kr. afgangi.

Þegar tekið er saman allur rekstur sveitarfélagsins, A og B hluta stofnanir þá varð hallinn 608 m.kr. en áætlað hafði verið að afgangur 168 m.kr. yrði. Munurinn er 776 m.kr.

Heildartekjur A hluta voru 4,5 milljarðar króna og 5,1 milljarðar króna þegar við er bætt tekjum B hluta stofnana.

Laun og tengd gjöld er langstærsti útgjaldaliðurinn og var hann alls 3 milljarðar króna í fyrra.

Skuldir og skuldbindingar A hlutans voru um síðustu áramót 6,3 milljarðar króna og hækkuðu um hálfan milljarð frá fyrra ári. Heildarskuldur samstæðunnar voru um 8,5 milljarðar króna í lok síðasta árs og hækkuðu um nærri 700 milljónir króna á árinu.

Þar af voru langtímaskuldir bæjarsjóðs 3 milljarðar króna um síðustu áramót og fyrir samstæðuna voru þær 5,5 milljarðar króna.

Skuldir 2,2 m.kr. á mann

Heildarskuldir Ísafjarðarbæjar voru 2,2 milljónir króna á mann um síðustu áramót samkvæmt töflu sem Í listinn lét taka saman. Þar eru bornar saman skuldir fjögurra sveitarfélaga bæði A hluta og A og B hluta. Skuldir A hluta Ísafjarðarbæjar, bæjarsjóðs, er ríflega fjórfalt hærri en skuldir pr mann í Reykjavíkurborg. Þegar bornar eru saman skuldir A og B hluta í Reykjavík og í Ísafjarðarbæ eru þær hærri pr mann í Ísafjarðarbæ en í Reykjavík. Hafa verður í huga að skuldir Reykjavíkurborgar eru miklar vegna Orkuveitunnar og virkjana henna og þeim skuldir fylgja tekjur sem standa eiga undir þeim.

DEILA