Iðnaðarráðherra skipar nefnd um aukið orkuöryggi á Vestfjörðum

Þórdís K. Gylfadóttir, iðnaðarráðherra.

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, iðnaðarráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp sem gera á tillögur um hvernig náð skuli markmiðum Alþingis um aukið afhendingaröryggi á raforku á Vestfjörðum. Gert er ráð fyrir að niðurstöður starfshópsins liggi fyrir á næsta ári.

Á aðalfundi Orkubús Vestfjarða, sem haldinn var á föstudaginn í síðustu viku rifjaði Illugi Gunnarsson, stjórnarformaður Orkubúsins frá því að Alþingi hefði samþykkt þá stefnu að fyrir árið 2030 hafi sá áfangi náðst að allir landsmenn búi
við afhendingaröryggi raforku sem byggir á N-1 tengingu. „Um þessa stefnumótun stjórnvalda ríkir góð sátt og orkufyrirtækin í landinu og þeir sem bera ábyrgð á dreifingu orkunnar þurfa að hafa fullmótaðar áætlanir um hvernig þessari stefnumótun verði best hrint í framkvæmd“ sagði Illugi í ávarpi stjórnarformanns.

„Hvað starfsvæði Orkubús Vestfjarðar áhrærir má ljóst vera að ráðast þarf í verulegar framkvæmdir á næsta áratug til þess að N-1 tenging geti orðið að veruleika. Mikilvægt er sem fyrst liggi fyrir hvort fara eigi þá leið að ná markmiðinu með því að t.d. tvöfalda línuna frá Hrútafirði og vestur eða hvort stefna eigi að því að N-1 markmiðinu verði náð með
því að blanda saman nýrri orkuöflun og eflingu flutningskerfisins.“

Gera þyrfti athugun á þessum tveimur kostum og bera þá saman. Illugi kvaðst telja að ráðlegast væri að fara blandaða leið, „það er að nýta orkukosti sem sannarlega eru til staðar í fjórðungnum og um leið bæta flutningsgetuna. Ég tel að sterk rök hnígi til þess að verði sú leið farin muni umtalsverðir fjármunir sparast ásamt því að næg orka verður til staðar til að knýja áfram vöxt í atvinnulífi Vestfirðinga.“

Í samtali við Bæjarins besta sagði Illugi að hann hefði rætt þetta fyrir aðalfundinn við ráðherra sem væri mjög áfram um að bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Hefði Iðnaðarráðherra ákveðið að setja strax í gang starfshóp um þetta mál.

Afstaða Alþingi væri ljós með samþykkt þingsályktunar frá júní 2018 um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Þar segir að treysta skuli flutningskerfið betur, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt. Sérstaklega er tekið fram að Eyjafjarðarsvæði, Vestfirðir og Suðurnes skuli vera sett í forgang.

DEILA