Í listinn: fjárhagsstaða Ísafjarðarbæjar grafalvarleg. Sveitarfélagið ætti að vera í gjörgæslu

Frá bæjarstjórnarfundi 2019. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í listinn lagði fram harðorða bókun um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins þegar ársreikningur Ísafjarðarbæjar fyrir 2020 var ræddur á fundi bæjarstjórnar í fyrradag. Í listinn segir fjárhagsstöðuna grafalvarlega og að meirihlutinn hafi misst yfirsýn yfir reksturinn. Í bókuninni segir að tekjur sveitarfélagsins dugi ekki fyrir rekstrargjöldum, og brúa þurfi mismuninn með lántökum. Afleiðingin er sú að skuldir Ísafjarðarbæjar hafa vaxið gríðarlega sl. ár. eða um 2,2. milljarða frá árinu 2017.

Í lokaorðum bókunarinnar segir:

„Miðað við þá stöðu sem blasir við okkur í þessum ársreikningi, ætti sveitarfélagið með réttu að vera komið í gjörgæslu hjá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.“

Bókunin í heild:

„Bæjarfulltrúar Í-listans þakka starfsfólki Ísafjarðarbæjar fyrir vel unnin störf á árinu 2020 og við vinnu á þessum reikningi. Ljóst er að ekki er við almenna starfsmenn að sakast um hversu illa fór í rekstri bæjarfélagsins á síðasta ári.

Það er augljóst að fjárhagsstaða Ísafjarðarbæjar er grafalvarleg. Meirihlutinn og bæjarstjórinn þeirra virðist hafa misst alla yfirsýn á reksturinn, áhuga á verkefninu sem og þá ábyrgðartilfinningu sem fólk í þessum hlutverkum verður að hafa.

Viðsnúningur frá samþykkt fjárhagsáætlunar er tæpar 800m.kr. þó svo að skatttekjur bæjarins hafi nánast staðið í stað milli ársins 2019 og 2020. Rekstrargjöld og skuldir aukast að því er virðist stjórnlaust. Afborganir lána hafa hækkað um nærri 100 milljónir milli ára þrátt fyrir að verðbólga hafi aldrei verið lægri og því sjaldan hagstæðara að skulda. Niðurstöður ársreiknings sýnir rekstrarhalla upp á rúmar 608m.kr, þar af er A-hlutinn 564m.kr. og það endurspeglar þann alvarleika sem bæjarfélagið er í.

Á tímum heimsfaraldurs eru áskoranir í rekstri sveitarfélaga miklar. Áhrif Covid-19 á rekstur bæjarsjóðs Ísafjarðarbæjar eru minni en hjá þeim sveitarfélögum sem hafa búið við mikið atvinnuleysi með tilheyrandi tekjumissi skatttekna. Atvinnuástand á svæðinu hefur verið með ágætum, heilt yfir hefur atvinnuleysi verið svipað og undanfarin ár eða um 3% og eru útsvarsgreiðslur aðeins 40 m.kr. kr lægri en áætlun gerði ráð fyrir sem er nánast á pari við tekjur ársins 2019.

Tekjur sveitarfélagsins duga ekki fyrir rekstrargjöldum, og brúa þarf mismuninn með lántökum. Afleiðingin er sú að skuldir Ísafjarðarbæjar hafa vaxið gríðarlega sl. ár. eða um 2,2. milljarða frá árinu 2017, frá 6,3 milljörðum í 8,5 milljarða. Slík ógnarhröð skuldsetning er gríðarlegt áhyggjuefni. Er nú svo komið að skuldir á hvern íbúa eru 1,67 milljónir kr. vegna A-hluta og 2,24 milljónir kr. vegna samstæðunnar.

Í fljótu bragði er ekki hægt að benda á eina ástæðu þessa mikla viðsnúnings í rekstrinum. Tekjur A-hluta annarsvegar og samstæðunnar hins vegar eru á pari við árið á undan, en vissulega um 320 milljónum lægri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Þar af er tekjufall hafnarsjóðs um 150 milljónir. Heildar rekstrarkostnaður er um 340 milljónum kr. hærri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun og hátt í 500 milljónum kr. hærri en árið á undan. Þá leiðir skuldaaukning til aukinna fjármagnsgjalda, en 100 milljónum kr. munar á fjárhagsáætlun og ársreikningi.

Flest virðist því benda til þess að fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 hafi verið illa unnin, of lág á útgjaldahliðinni og of há á tekjuhliðinni.

Við köllum því eftir betri útskýringum til að ná utan um þetta. Miðað við þá stöðu sem blasir við okkur í þessum ársreikningi, ætti sveitarfélagið með réttu að vera komið í gjörgæslu hjá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.“

Ársreikningnum var vísað til síðari umræðu og afgreiðslu á næsta fundi bæjarstjórnar.

DEILA