Hnúðlax á Íslandi – Vágestur eða velkominn?

Mynd: Háskólasetur Vestfjarða.

Mánudaginn 10. maí, kl. 14:00, mun Hjörleifur Finnsson verja meistaraprófsritgerð sína í haf- og strandsvæðastjórnun. Meistaraprófsvörnin er opin almenningi en vegna samkomutakmarkana af völdum COVID-19 getur takmarkaður fjöldi sótt viðburðinn í Háskólasetrinu. Vörnin verður einnig aðgengileg á Zoom.

Ritgerðin ber titilinn „Hnúðlax á Íslandi – Vágestur eða velkominn?“

Aðalleiðbeinandi er Dr. Catherine Chambers, rannsóknastjóri Háskólaseturs Vestfjarða og deildarsérfræðingur við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Annar leiðbeinandi er Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri Fersksvatnslífríkissviðs Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnunar hafs og vatna. Prófdómari er Dr. Óskar Sindri Gíslason, forstöðumaður Náttúrustofu Suðvesturlands.

Útdráttur

Í þessari rannsókn er stjórnun framandi tegunda á Íslandi skoðuð út frá hnúðlaxi sem dæmi um tegund sem hefur borist til Íslands sem flækingur allt frá 1960 en fjölgaði mikið árin 2017 og 2019. Skoðunin náði til stjórnkerfis ríkisins eins og það birtist, allt frá alþjóðasamningum, stefnumörkunum, lagasetningu, til framkvæmdar einstakra stofnana. Rannsóknin fólst í heimildavinnu og viðtölum, þar sem talað var við tíu aðila, sex í lykilstöðum í stjórnkerfinu og fjóra frá ólíkum hagsmunaaðilum í náttúruvernd og stangveiði, til þess að svara því hvaða samhengi er á milli stjórnunar íslenska ríkisins á framandi og ágengum tegundum og stefnu þess um líffræðilega fjölbreytni. Niðurstöðurnar má draga saman í þrjú megin atriði: A) Viðbrögð við komu hnúðlax til Íslands og skyndilegrar fjölgunar hans eru takmörkuð við skráningu á veiði og móttöku sýna. Engar rannsóknir eða ferli hafa verið sett sérstaklega í gang vegna komu hans. Þekkingu á grunnþáttum vistfræði hans og atferli á Íslandi er ábótavant. B) Vöktun og rannsóknum framandi tegunda á Íslandi er verulega ábótavant. Náttúrufræðistofnun hefur ekki, hingað til, fylgst með lífríki sjávar og ferskvatns. Engar áætlanir, verkferlar eða skipulegar samhæfðar aðferðir liggja fyrir um hvernig skuli fylgjast með framandi tegundum og hvernig skuli flokka framandi og ágengar tegundir sem slíkar. C) Stjórnun lífauðlinda í stjórnkerfi íslenska ríkisins hvað varðar framandi tegundir er ábótavant á öllum stjórnunarstigum; alþjóðasamninga, stefnumörkun, lagasetning og framkvæmd. Í heimi þar sem framandi og ágengar tegundir eru ört vaxandi vandamál gefur rannsóknin  innsýn í vandamál stjórnunar á framandi ágengum tegundum á Íslandi og gerir tillögur um lausnir á þeim.

DEILA