Hjörleifur Finnsson ráðinn verkefnisstjóri á Flateyri

Hjörleifur Finnsson hefur verið ráðinn verkefnisstjóri á Flateyri og mun hann hefja störf nú undir lok maí.

Hann tekur við af Helenu Jónsdóttur sem lýkur störfum 1. júní. Hlutverk verkefnisstjóra er að leiða nýsköpunar- og þróunarverkefni á Flateyri, í samstarfi við verkefnisstjórn á grundvelli samnings milli samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, Ísafjarðarbæjar og Vestfjarðarstofu.

Hjörleifur lauk B.A. prófi í heimspeki frá Háskóla Íslands 1995 og diplóma í opinberri stjórnsýslu við sama skóla 2015.

Hann varði meistararitgerð sína í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða nú í maí 2021. Auk þessa hefur Hjörleifur lokið að hluta meistaranámi í heimspeki, félagsfræði og stjórnmálafræði, aflað sér landvarðarréttinda, tekið námskeið í þjóðgarðastjórnun o.fl.

Hjörleifur hefur rúmlega 20 ára reynslu af verkefnastjórnun, stjórnun og rekstri, stefnumótun og ráðgjöf auk þess að sinna ýmsum kennslu- og fyrirlestrarstörfum undanfarin ár. Hann er og var einn stofnenda og eigenda Íslenskra fjallaleiðsögumanna ehf., hefur m.a. starfað sem ráðgjafi í ferða- og umhverfismálum hjá Royal Commission of Al Ula í Saudi Arabíu 2018 til 2019 og sem verkefnastjóri umhverfismála hjá Ferðamálastofu 2016 til 2018.

DEILA