Hjólabækurnar endurritaðar

Hjólabækur Ómars Smára Kristinssonar spanna hálft landið og er að finna í mörgum bókahillum. Nú er höfundur þeirra að skrifa þær upp á nýtt. Þá er rétt að rifja upp sögu þeirra.

Vestfirska forlagið gaf út rúmlega 400 bókatitla á þeim árum sem það starfaði. Flestar bókanna fjalla um vestfirsk málefni. Algengastar eru bækur með fróðleik um mannlíf og sögu svæðisins, ýmist í léttum dúr eða meiri alvöru. Árið 2011 gaf forlagið út bók sem var upphafið að öðruvísi bókaflokki. Þetta var fyrsta Hjólabókin. Hún skar sig ekki úr að því leytinu til að hún fjallaði um Vestfirði. Svo fóru að koma út fleiri Hjólabækur en þær fjölluðu um önnur landsvæði. Það kom þó ekki í veg fyrir að Vestfirska forlagið gæfi þær út.

Hallgrímur Sveinsson, maðurinn á bakvið Vestfirska forlagið, kom víða við á ævi sinni, var margt til lista lagt og hafði mörg áhugamál. Hjólreiðar voru ekki þar á meðal. Ástæða þess að hann fór að gefa út Hjólabækur var sú að samstarfsmaður hans, Ómar Smári Kristinsson, fékk hjóladellu og langaði að deila ástríðu sinni með fólki. Smári þessi og kona hans, Nína Ivanova, höfðu um nokkurra ára skeið tekið að sér verkefni fyrir Hallgrím. Ljósmyndir, kort og teikningar eftir þau eru í mörgum bóka forlagsins, Smári villulas nokkur verk og Nína sá um umbrot fjölmargra bóka. Þau þrjú kunnu að vinna saman. Það er skemmst frá því að segja að þessi aukna samvinna, með tilkomu Hjólabókanna, gekk ljómandi vel. Bækurnar voru nógu vinsælar til þess að útgáfan borgaði sig. Vestfirska forlagið hélt ótrautt áfram að gefa þær út þó að landsvæðið sem lýst er í nýjustu bókunum sé víðsfjarri Vestfjörðum.

Snemma árs 2020 dó Hallgrímur. Hann var öllum harmdauði. Margir sakna hans og Vestfirska forlagsins. Það þarf þó ekki að sakna Hjólabókanna. Smári og Nína voru komin með nógu mikla reynslu í bransanum til að treysta sér til að gefa bækurnar út sjálf. Til að byrja með ætlar Smári að skrifa nýjar bækur um þau svæði sem hann var þegar búinn að skrifa um. Á Íslandi úreltast ferðalýsingar hratt. Mennirnir og önnur náttúruöfl breyta landi og leiðum; loka á sumt en opna annað. Þess verður ekki langs að vænta að ný Hjólabók um Vestfirði líti dagsins ljós – tvö eða þrjú ár.

 Til að byrja með ætlar Smári að skrifa nýjar bækur um þéttbýlasta og fjölfarnasta svæði landsins, þar sem jafnframt breytist mest. Það eru Suðvesturland og Árnessýsla. Nú hefur hann ekkert forlag til að fylgja verkinu í gegnum prentsmiðju og á markað. Eins og algengt er með myndlistarmenn, þá eiga Smári og Nína ekki mikið af peningum. Þau brugðu því á það ráð að safna fyrir prentuninni á Karolina Fund. Það er söfnunarsíða þar sem hægt er að kaupa bækurnar fyrirfram. Viðskiptavinirnir fá bækurnar ekki strax, en þeir eiga sinn þátt í því að það takist að koma þeim út. Hér er hægt að sjá meira um verkefnið, fylgjast með hvernig því gengur og leggja lóð á vogarskálarnar: https://www.karolinafund.com/project/view/3351