Fráleitt að þjóðgarður hindri alla orkunýtingu

Elías Jónatansson orkubússtjóri skrifaði í gær ágæta og að því er virðist löngu tímabæra grein um hugsanlega stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum.

Aðeins eru liðnir um 16 mánuðir síðan núverandi undirbúningsferli að stofnun þjóðgarðsins hófst eða í byrjun ársins 2020. Af svari umhverfisráðherra við ágætri fyrirspurn Guðjóns Brjánssonar alþingismanns í vetur mátti ráða að fullt samráð væri haft við heimamenn við undirbúninginn  enda sætu þar fulltrúar Vesturbyggðar og Ísafjarðarbæjar.

Af grein Elíasar má ráða að ekki sé undirbúningsnefndin beinlínis að flíka þeim athugasemdum sem henni hafa borist í umsagnarferlinu.

Stofnun þjóðgarðs er mikil skuldbinding fyrir núlifandi kynslóðir og umfram allt fyrir komandi kynslóðir. Því þarf undirbúningur slíkrar stofnunar að vera vandaður og vera hafinn yfir allan vafa hvað almenna kynningu varðar. Við höfum ágætt dæmi um velheppnaða stofnun þjóðgarðs á Snæfellsnesi.

Þrátt fyrir að margt hafi áunnist við uppbyggingu samgöngumannvirkja á Vestfjörðum á undanförnum árum bíða þar mörg stórvirki. Raforkuöryggi á Vestfjörðum er óásættanlegt. Það á bæði við um framleiðslu rafmagns og dreifingu þess. Í mínum huga þurfa Vestfirðingar að vera sjálfum sér nægir í rafmagnsmálum og raunar ættu umbrot í náttúrunni að undanförnu að hafa kennt okkur það að betur færi á því að Vestfirðingar gætu flutt frá sér rafmagn frekar en til.  Ég tel mikilvægt að orkuöryggi landsmanna allra sé betur tryggt með því að orkuframleiðsla sé víðar um land.

Nú kann það að vera að núlifandi kynslóðir á Vestfjörðum nái saman um kyrrstöðu í framleiðslu og framþróun á dreifingu rafmagns frá sunnanverðum Vestfjörðum. Það er hins vegar fráleitt í mínum huga að núlifandi kynslóðir geti með stofnun þjóðgarðs lokað á möguleika komandi kynslóða í nýtingu auðlinda fjórðungsins. Því verða skilmálarnir nú að taka mið af því.

Umhverfisráðherra hefur látið hafa það eftir sér að stefnt sé að stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum þann 17.júní næstkomandi. Ef marka má grein Elíasar er þar alltof geyst farið. Ekkert réttlætir slíka hraðferð á jafnstóru hagsmunamáli komandi kynslóða. Það er greinilega margt óljóst og órætt.  Í mínum huga er þjóðgarður leið til að nýta og vernda.  Hvorugt má útiloka hitt. 

Haraldur Benediktsson

Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis