FÆRRI TÓKU ÞÁTT Í SÍMENNTUN ÁRIÐ 2020

Samkvæmt upplýsingum sem Hagstofa Íslands hefur birt tóku um 36.900 manns á aldrinum 25-64 ára þátt í símenntun árið 2020 eða 19,4% landsmanna á þessum aldri.

Þátttaka í símenntun minnkaði nokkuð frá síðasta ári þegar 20,8% landsmanna tóku þátt. Þátttakendum í símenntun hefur fækkað flest ár frá 2015 þegar 27,3% 25-64 ára landsmanna sóttu sér símenntun.

Þátttaka í símenntun var mest á meðal háskólamenntaðra en 26% háskólamenntaðra landsmanna á aldrinum 25-64 ára sóttu sér fræðslu árið 2020. 

Mikill meirihluti þeirra sem tóku þátt í símenntun voru starfandi á vinnumarkaði eða 29.200 manns. Sé litið á hlutfallstölur sóttu 18,9% starfandi fólks á aldrinum 25-64 ára sér símenntun, 20,3% atvinnulausra og 22,0% þeirra sem voru utan vinnumarkaðar.

Símenntun er skilgreind sem öll menntun sem einstaklingur sækir, hvort sem er formlegt nám í skóla eða menntun utan skóla, s.s. á námskeiði, fyrirlestri eða á ráðstefnu. 

DEILA