Bolungavík: framtíðin er björt með eða án laxasláturhúss

Forsvarsmenn Arctic Fish og Arnarlax hafa hitt fulltrúa Vesturbyggðar og Ísafjarðarbæjar og kynnt fyrir þeim hugmyndir um mögulega byggingu sameiginlegs laxasláturhúss fyrirtækjanna. Staðarvalsathugun stendur yfir og hafa nokkrir staðir verið til athugunar. Auk Patreksfjarðar og Flateyrar nær athugunin til Bolungavíkur, Suðureyrar og Súðavíkur auk staða utan Vestfjarða. Samkvæmt því sem næst verður komist hefur enn enginn staður verið útilokaður en greinilegt er að Patreksfjörður og Flateyri hafa forskot og því eru þeir komnir á það stig að fyrirtækin leggja fyrir sveitarfélögin sínar fyrirspurnir og bíða eftir svörum frá sveitarfélögunum.

Á þessu stigi virðiast byggðarlögin við Djúp ekki vera fyrst í röðinni þrátt fyrir að eldið er að hefjast í Djúpinu á næsta ári. Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík var inntur eftir stöðu málsins gagnvart sveitarfélaginu.

Hann segist hafa haldið fundi nokkrum sinnum með forsvarsmönnum Arctic Fish og Arnarlax um innviðina sem boða stendur í Bolungavík. „Ég treysti fyrirtækjunum til þess að taka ákvörðun með hagsmuni samfélagsins á norðanverðum Vestfjörðum í huga“ segir Jón Páll.

Hann segir það augjóst að uppbygging laxeldisins í Ísafjarðardjúpi verði mikil lyftistöng fyrir samfélögin og sláturhúsi fylgi umtalsverður ávinningur en „hins vegar stendur samfélagið í Bolungavík ekki né fellur með laxasláturhúsi. Það er verið að byggja upp hér eitt fullkomnasta frystihús landsins, það er verið að byggja fiskmarkað, það er mikill vöxtur í vinnslu hjá landbúnaðarfyrirtækinu Örnu og stór fasteignaverkefni eru undirbúningi. Íbúum hefur fjölgað síðastliðin 5 ár.“

Lokaorð Jóns Páls Hreinssonar, bæjarstjóra voru:

„Framtíðin er björt í Bolungavík með eða án sláturhússins.“

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!