Bjart fram undan í Ísafjarðarbæ

Ársreikningur Ísafjarðarbæjar var tekin til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar í gær. Rekstur síðasta árs var erfiður sem á ekki að koma á neinum óvart. COVID áhrifin komu hart niður á rekstri sveitarfélagsins og valda því að umtalsverður halli er á rekstrinum en rekstrarhalli síðasta árs nemur um 600 milljónum. Heildartekjur A og B hluta voru rétt liðlega 5 milljarðar á síðasta ári og lækka um 300 milljónir milli ára eða tæplega 6%. Tekjulækkunin milli ára er bein afleiðing af COVID faraldrinum en þar vega þyngst skerðingar á framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og minni tekjur af höfninni. Tekjur hafnarinnar drógust mikið saman þar sem ferðir skemmtiferðaskipa féllu alfarið niður á síðasta ári vegna COVID.

Það segir sig sjálft að við þessar fordæmalausu aðstæður er ekki svigrúm til launahækkana. Launakostnaður hækkaði samt um liðlega 10% milli ára eða 275 milljónir samfara umsömdum kjarasamningsbundnum hækkunum. Hlutfall launa af heildarútgjöldum sveitarfélagsins er u.þ.b. 60% og því hafa breytingar á launalið mikil áhrif á rekstur sveitarfélagsins.

Það var alveg vitað mál að síðasta rekstrarár yrði erfitt og í raun allur sá tími sem við erum að takast á við afleiðingar af COVID faraldrinum.

Rekstraráætlun Ísafjarðarbæjar með viðaukum gerði ráð fyrir rekstarhalla á síðasta ári uppá 380 milljónir. Það sem var ekki fyrirséð þá var að lífeyrisskuldbinding hækkaði um tæplega 100 milljónir. Þar að auki er byggingarkostnaður vegna Sindragötu blokkarinnar liðlega 100 milljónum króna hærri en söluverð íbúðanna. Þessir tveir útgjaldaliðir skýra þann mun sem var á áætlun og endanlegri niðurstöðu á rekstrinum.

Að sjálfsögðu er enginn ánægður með að halli sé á rekstri sveitarfélagsins en það er mikilvægt að horfa til þess að um tímabundnar og óviðráðanlegar aðstæður er að ræða. Þrátt fyrir þetta er staða Ísafjarðarbæjar sterk og ekkert sem bendir til annars en við verðum fljót að vinna okkur út úr þessu ástandi. Það styttist í að við sigrumst á veirunni sem leikið hefur heimsbyggðina grátt og daglegt líf færist í fyrra horf. Ljósið við enda ganganna verður bjartara með degi hverjum og framtíðin í okkar samfélagi er björt. 

Daníel Jakobsson,

formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar

DEILA