Vonir um 50-60 skemmtiferðaskip í ár

Guðmundur M. Kristjánsson yfirhafnarvörður Ísafjarðarhafna segir að endurbókanir séu hafnar hjá skipafélögunum. Miðað við þær á hann von á því að rólegt verði fram í miðjan júlí í sumar en þaðan í frá fram i september verði skipakomur a.m.k. annan hvern dag.

„Það er mín tilfinning að það verði allt að 50 – 60 skip sem koma vestur í sumar“ segir Guðmundur.

Að sögn Guðmundar eru 2 – 3 skipafélög að skipulega farþegasiglingar um Ísland í sumar. Fyrirkomulagið sem er í undirbúningi af þeirra hálfu er að fljúga bólusettum farþegum til landsins þar sem þeir fari um borð í skipið. Áhafnirnar verði komnar áður og búnar að fara í sóttkví.

Að öllu virtu er Guðmundur M. Kristjánsson nokkuð bjartsýnn á að úr rætist með skipakomur í sumar þótt þær verði nokkuð fjarri því sem var fyrir covid19.

DEILA