Vinsældir ráðherra: hallar undan fæti hjá Þórdísi en Ásmundur rýkur upp listann

Í nýrri könnun Gallup um ánægju með störf ráðherra ríkisstjórnarinnar verða töluverðar breytingar á afstöðu kjósenda frá síðasta ári. Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra er nú sá ráðherra sem næst mest ánægja er með. Er það mikil breyting frá síðasta ári þegar hann naut næst minnstu ánægju svarenda af ráðherrunum 11. Nú eru 59% ánægðir með störf hans en voru aðeins 35% á síðasta ári.

Frá könnuninni er skýrt á RUV.

Þeir sem eru óánægðir með störf félagsmálaráðherrans hefur fækkað um helming frá því í fyrra. Nú eru aðeins 13% óánægðir en voru 27% á síðasta ári. Ásmundur Einar er sá ráðherra sem minnst óánægja er með og slær hann forsætisráðherranum við í þeim efnum en 16% eru óánægðir með störf hennar.

Öðru máli gegnir um viðhorf til starfa hins þingmanns kjördæmisins sem vermir ráðherrabekkinn. Þórdís K. Gylfadóttir, ferðamálaráðherra hefur sigið í áliti hjá svarendum könnunarinnar. Nú eru 35% ánægðir með störf hennar en þeir voru 46% fyrir ári. Fellur Þórdís niður í 9. sæti á ánægjulistanum úr 3. sætinu. Ánægjan hefur minnkað um 11% og aðeins menntamálaráðherrann Lilja Alferðsdóttir hefur dalað meira, en ánægjan með störf hennar hefur minnkað um 12%.

Óánægjan með störf Þórdísar hefur vaxið og mælist nú 27% en var 18% í fyrra. Er hún í 6.-7. sæti á þeim lista en hafði í fyrra verið með næst minnstu óánægjuna.

Könnunin var gerð dagana 25. mars til 19. apríl.  Þátttökuhlutfall var 50,3%. Úrtaksstærð var 3.186 einstaklingar 18 ára eða eldri af öllu landinu, valdur af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup.