Vilhelm Þorsteinsson EA 11

Vilhelm Þorsteinsson EA 11 er nýtt skip til uppsjávarveiða og var smíðað sérstaklega fyrir Samherja. Skipið sigldi inn Eyjafjörðinn í fyrsta sinn á laugardag.

Vilhelm Þorsteinsson er stórt, glæsilegt og fullkomið skip, 89 metrar á lengd og 16,6 metrar á breidd. Burðargetan er vel yfir þrjú þúsund tonn í þrettán lestartönkum þar sem aflinn verður kældur niður til að sem best hráefni komi að landi.

Karstensens skipasmíðastöðin í Skagen Danmörku hannaði og smíðaði skipið eftir þörfum Samherja og naut ráðgjafar starfsfólks Samherja við verkið. Beðið hefur verið eftir skipinu með nokkurri eftirvæntingu en samningar um smíði þess voru undirritaðir 4. september 2018. Þann dag hefðu tvíburarnir Baldvin og Vilhelm Þorsteinssynir orðið 90 ára. Nýsmíðin leysir af hólmi eldri Vilhelm Þorsteinsson EA 11 sem kom nýr til landsins um síðustu aldamót.

Skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA 11 er frá Bolungarvík og heitir Guðmundur Þ. Jónsson. Hann segir að skipið sé framúrskarandi vel hannað. „Á siglingunni heim prófuðum við að lesta skipið með sjó og prófuðum að snúa því á fullri ferð og hallinn var mjög lítill. Skipið kom einstaklega vel út úr þessari siglingu heim. Ég hef verið skipstjóri í um þrjátíu ár og ég held að það sé óhætt að fullyrða að þetta er eitt besta skip sem ég hef stýrt á mínum ferli,“ segir Guðmundur. Þagar Guðmundur er ekki skipstjóri er það Bolvíkingurinn Birkir Hreinsson sem tekur við skipstjórninni.

Áætlað er að skipið haldi til veiða á fimmtudaginn í næstu viku.

DEILA