Verður Ólafur Ragnar næsti heiðursborgari Ísafjarðarbæjar?

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti einróma á fundi sínum sl. fimmtudag reglur um heiðursborgara Ísafjarðarbæjar. Ekki hafa hingað til verið til neinar reglur um útnefningu heiðursborgara eða hvað nafnbótin felur í sér en nú hefur verið bætt úr því.

Reglurnar voru samdar eftir að bæjarráði barst erindi frá Indriða Kristjánssyni með tillögu um heiðurborgara. Ekki hefur verið upplýst hver tillaga Indriða er. Var það lagt fram í bæjarráði 22. mars og viku seinna afgreiðir bæjarráðið til bæjarstjórnar tillögu að reglum sem svo samþykkti þær í síðustu viku sem fyrr segir.

Í reglunum segir að bæjarstjórn geti með einróma samþykkt útnefnt sérstakan heiðursborgara Ísafjarðarbæjar. Það getur verið sérhver íbúi, fyrrverandi sem núverandi.

störf í þágu lands og þjóðar

í reglunum segir að bæjarstjórn „skal hafa hliðsjón af störfum viðkomandi einstaklings í þágu sveitarfélagsins og/eða afrekum í þágu lands og þjóðar. Horfa skal til þess að viðkomandi einstaklingur hafi haft veruleg jákvæð áhrif á samfélagið, störf og framganga hafi verið til fyrirmyndir og til eftirbreytni, og að viðkomandi hafi stuðlað að jákvæðri ímynd sveitarfélagsins.“

Valið skal vera trúnaðarmál fram að heiðrun, sem fer fram við hátíðlega athöfn svo sem við opinbera hátíð eða afmæli viðkomandi.

Skilgreindar eru skyldur bæjarfélagsins gagnvart heiðursborgara og þær eru styrkur sem nemur greiðslu fasteignaskatts af íbúðarhúsi heiðursborgara sem hann býr sannarlega í, í Ísafjarðarbæ, bjóða heiðursborgara til opinberra athafna á vegum sveitarfélagsins, heimilt er að veita honum sérstakt framlag og taka þátt í útför og greiða kostnað vegna hennar að ákveðnu hámarki.

Sem fyrr segir hefur ekki verið upplýst um hvern tillaga hefur verið gerð sem heiðursborgara og bæjarstjórn hefur ekki afgreitt þá tillögu né aðra um heiðursborgara.

Fyrir þremur árum var Vilberg Valdal Vilbergsson útnefndur heiðursborgari Ísafjarðarbæjar.

Telja verður hins vegar líklegt að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hafi samþykkt reglurnar um heiðurborgara þar sem í undirbúningi er að útnefna nýjan heiðursborgara. Spurningin er líklegast því sú hver það er. Þar koma ýmsir til greina, en orðalagið störf í þágu lands og þjóðar geta bent til fyrrverandi forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar. Hann á afmæli 14. maí.

DEILA