Veitingamenn í Covid : Víkurskálinn

Vertarnir í Víkurskálanum í Bolungavík heita Oddur Andri Thomasson og Ragnar Sveinbjörnsson.

Þeir opnuðu 1. júní 2018 á Sjómannadagshelginni sjálfri sem á einstaklega vel við Bolungavík.

Ragnar er borinn og barnfæddur Víkari og Oddur ættaður úr Víkinni en  flutti alfarið fyrir 5 árum.

Þeir segja að Covid ástandið sé búið að vera eins og rússibanareið. Í fyrstu bylgjunni lokuðu þeir í þrjár vikur enda lagðist sú bylgja einstaklega illa á Bolungavík.

Eftir þá lokun tóku þeir á það ráð að opna bílalúguna aftur og gaf það góða raun.

Sumarið gekk vel og aðspurðir telja þeir að þeir hafi fundið minni mun þar sem svokallaði massatúrismi hefur lítið komið við í Bolungavík og eru þeir því vanari línulegri kúrfu frekar en kollegar þeirra á stærri ferðamannastöðum.

Júlí 2020 var langbesti sumarmánuðurinn og taka þeir undir með Sigurði Arnfjörð að Íslendingar hafi verið einstaklega kurteisir og jákvæðir þetta sumarið. Taka einnig undir með honum um að hver viðskiptavinur er að versla meira en þeir hafa vanist.

Páskarnir hafa haft áhrif, í raun búnir að missa út tvenna páska en venjulega hafa páskar sett tóninn fyrir sumarið.

Þeir hafa verið þeirrar blessunar aðnjótandi að hafa ekki þurft að segja upp starfsmönnum og vinnst það af ýmsum þáttum. Erlent starfsfólk hélt heim á leið og ekki var fyllt í þær stöður. Ríkisaðstoðin hjálpaði mikið til. Einnig reka þeir bón og þrifastöð samhliða Víkurskálanum og hefur það púslast saman að hlutirnir hafa gengið upp.

Einstaka sinnum hefur komið uppgjafatónn en þeir eru þó bjartsýnir. Smá íslenskur tónn, þetta reddast, hefur gert það hingað til og að sjálfsögðu vonum við að það gangi áfram.

Aðspurðir hver er stærsti viðskiptavinahópurinn segja þeir Ísfirðinga mjög duglega að koma sem og ákveðinn fastahópur í Víkinni.