Útboð innanlandsflugs: Vegagerðin braut lög með vali á Norlandair, en Ernir uppfylltu ekki fjárhagsskilyrði útboðsins

Kærunefnd útboðsmála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Norlandair hefði breytt grundvallarþáttum í tilboði sínu um rekstur tveggja flugleiða innanlands með því að stofna til samstarfs við annan aðila eftir skil tilboða um rekstur flugs á einni flugleið með flugvél sem fullnægði kröfum útboðsgagna um jafnþrýstibúnað, og að Vegagerðin hafi ekki mátt taka tilboðinu þannig breyttu. Telur kærunefndin því að Vegagerðin hefði brotið gegn lögum um opinber innkaup með vali á tilboði Norlandair í útboðinu.

En þar sem þegar hafði verið gerður bindandi samningur við Norlandair um flugleiðirnar á grundvelli útboðsins um flugleiðirnar var hafnað kröfu Ernis um að felld yrði úr gildi ákvörðun varnaraðila um val tilboða.

Flugfélagið Ernir kærði í október 2020 til kærunefndarinnar ákvörðun Vegagerðarinnar, en félagið hafði annast flugleiðirnar.

Hins vegar taldi kærunefndin að Flugfélagið Ernir hefði ekki fullnægt kröfum útboðsgagna um fjárhagslegt hæfi við skil tilboða. Jafnframt segir kærunefndin að Ernir hefði ekki í tilboði sínu haft í hyggju að sýna fram á fjárhagslegt hæfi sitt með framlagningu bankaábyrgðar, heldur hafi sú fyrirætlan fyrst komið til að ósk varnaraðila eftir skil tilboða. Kærunefndin kemst að þeirri niðurstöðu að með framlagningu bankaábyrgðarinnar hafi grundvallarþáttum í tilboði Ernirs einnig verið breytt og ekki hefði mátt taka tilboðinu þannig breyttu. Því hafi kærandi ekki sýnt fram á að hann hefði átt raunhæfa möguleika á að verða fyrir valinu í útboðinu.

 Tilboð voru opnuð 16. júní 2020. Í útboðsskilmálum voru ákvæðu um flugvélar, stærð þeirra, sætafjölda og flutningsgetu, undirverktaka og fjárhagsstöðu. Hinn 31. ágúst 2020 tilkynnti Vegagerðin að tilboði Norlandair ehf. hefði verið tekið í allar flugleiðir. Með tölvubréfi varnaraðila til kæranda þann sama dag kom fram að tilboði hans hefði verið hafnað þar sem hann hafi ekki uppfyllt kröfur útboðsgagna um jákvætt eigið fé. Fram kemur að Norlandair hafi ekki uppfyllt kröfur um gerð og búnað flugvélar, svo sem jafnþrýstibúnað og sætafjölda.

17. september 2020  afturkallaði Vegagerðin fyrri ákvarðanir um val á tilboðum í útboðinu. Þá kom fram að óskað yrði eftir frekari gögnum frá bjóðendum og ósk um að bjóðendur framlengdu gildistíma tilboða til 14. október 2020. Þann dag var tilkynnt um val á Norlandair í flugleiðunum tveimur sem kærðar voru.

Úrskurðarnefndin segir að samkvæmt lögum um opinber innkaup verður bindandi samningur sem komist hefur á samkvæmt lögunum ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt.

Fyrir liggi þó, segir í úrskurði nefndarinnar að Norlandair ehf. hafi við opnun tilboða ekki búið yfir flugvél sem hafi fullnægt bæði áskilnaði um að taka að lágmarki 15 farþega í sæti og verið búin jafnþrýstibúnaði. því hafi Vegagerðin brotið gegn lögum um opinber innkaup við val á tilboði Norlandair ehf. í flugleiðir F1 og F2 í hinu kærða útboði. En jafnframt hafi Ernir ekki fullnægt kröfum útboðsgagna um fjárhagslegt hæfi. Verður því að telja að Ernir hafi ekki sýnt fram á að hann hafi átt raunhæfa möguleika á að verða fyrir valinu af varnaraðila í flugleiðirnir segir að lokum í úrskurði nefndarinnar.

DEILA