Uppskrift vikunnar

Það virðist kannski skrítið fyrir okkur Íslendinga að borða kalda súpu en þessi er yndislega góð.

Ég á skemmtilega sögu hvernig ég kynntist þessari súpu, var stödd á Spáni og var eitthvað slöpp og þjónn þar segir mér að þetta sé súpan sem Spánverjar borða þegar svoleiðis er ástatt.

Viðurkenni alveg að mér leist ekki beint á kalda súpu og sagði það, bauð hann mér þá að gefa mér súpuna ef mér þætti hún ekki góð. Skemmst frá því að segja að ég borgaði súpuna og leið bara mun betur af henni.

Verði ykkur að góðu.


Höfundur uppskriftar er Sigurveig Káradóttir

Þessa er gott að eiga í ísskápnum.
Þar geymist hún vel í nokkra daga og hægt er að fá sér glas til hressingar.

1 kg. tómatar
500 gr. gúrka
300 gr. rauð paprika
1- 2 hvítlauksrif
50 ml. hvítvínsedik
150-200 ml. jómfrúarolía
100-150 gr. dagsgamalt brauð án skorpu

Sjávarsalt
Hvítur pipar

Gúrkurnar eru skrældar og paprikurnar fræhreinsaðar.

Allt grænmetið skorið í litla bita og sett í skál ásamt brauðinu.

Hluta af edikinu og jómfrúarolíunni bætt saman við ásamt örlitlu sjávarsalti og hvítum pipar.

Látið standa við stofuhita í um 30 mínútur, eða þar til allt hefur blandast vel.

Þá er allt maukað með töfrasprota, restinni af jómfrúarolíunni og edikinu bætt saman við og smakkað til með salti og pipar.

Kælt vel áður en borið fram.

Einföld, fljótleg og stútfull af næringu.

Umsjón: Halla Lúthersdóttir.

DEILA