Tungumálatöfrar

Tungumálatöfrar eru sumarnámskeið fyrir fjöltyngd börn á Ísafirði. Námskeiðið er haldið fyrstu vikuna í ágúst og í ár, 2021, fer það fram dagana 3. – 7. ágúst. Námskeiðið er annarsvegar listsköpunarnámskeið fyrir 5-11 ára og hinsvegar útivistarnámskeið fyrir 12-15 ára. Báðum námskeiðum lýkur með töfragöngu á Ísafirði sunnudaginn 8. ágúst, þar sem þátttakendur deila með bæjarbúum og gestum því sem þau hafa verið að vinna að á námskeiðunum.

Námskeiðinu er ætlað að örva íslenskukunnáttu þar sem íslenska er annað mál barnanna eða eitt af mörgum tungumálum. Námskeiðið hentar bæði börnum sem búa erlendis og vilja styrkja sig í íslenskunni og tengsl sín við landið, sem og nýjum Íslendingum sem eiga annað tungumál að móðurmáli og vilja bæta íslenskukunnáttu sína. Tungumálatöfrar eru haldnir í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og útivistarnámskeiðið á Flateyri. Rík áhersla er á listsköpun í allri kennslu og læra börnin í gegnum tónlist, myndlist, leiklist og dans.

Hugmyndin að verkefninu vaknaði árið 2016 þegar áhugafólk um fjöltyngi fundaði á Ísafirði. Anna Hildur Hildibrandsdóttir er formaður stjórnar Tungumálatöfra sem rekið er í samstarfi við Menningarmiðstöðina Edinborg, Ísafjarðarbæ og fleiri fyrirtæki og stofnanir á svæðinu. Anna Sigríður Ólafsdóttir var nýlega ráðin til Tungumálatöfra sem verkefnastjóri.

Aðspurð segir Anna Sigríður ekki hægt annað en að viðurkenna að það hafi verið aðeins snúnara en áður að halda námskeiðið í fyrra sökum yfirstandandi heimsfaraldurs, en það var engu að síður gert og það tókst stórvel til. Fullt var á Tungumálatöfra í Edinborgarhúsinu og Töfraútivistin sem haldin var í fyrsta sinn í fyrra var mjög vel sótt. Hún segir að þó námskeiðið sé að hluta til hugsað fyrir börn sem eru búsett erlendis er það líka hugsað fyrir fjöltyngd börn sem búa á Íslandi og aukning hafi verið af þeim nemendum í fyrra sem hafi verið frábært.

Opið er fyrir skráningar og allar upplýsingar hægt að nálgast á facebook síðu Tungumálatöfra.

DEILA