Súgfirðingar safna fyrir endurbótum á kirkjunni

Suðureyrarkirkja. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Miklar endurbætur hafa staðið yfir á Suðureyrarkirju frá því í fyrra. Þak kirkjunnar, kirkjuturn og gluggar hafa farið í gegnum viðamiklar endurbætur og lagfæringar. Hefur verkinu miðað vel áfram þrátt fyrir mikinn kostnað. Fyrirtæki í byggðarlaginu hafa reitt fram vegleg framlög og Súgfirðingar hafa verið duglegir að efna til söfnunar.

Fram kemur hjá Eyþór Eðvarðssyni einum forsvarsmanni söfnunarinnar að það vanti ekki mikið til að geta klárað síðustu verkefnin, sem eru að mála kirkjuna að innan og utan og lagfæra rakaskemmdir inni í kirkjunni.

Nýjasta söfnunin fólst í sölu á 50 veglegum pökkum af fiski á 7.500 kr hvern sem Fisherman vann og gaf til söfnunarinnar. Eftir því sem Bæjarins besta kemst næst söfnuðust um 500 þúsund krónur í þessu átaki. Hefur eigandi Fisherman Elías Guðmundsson nefnt að hann sé til í að setja meira í söfnunina til þess að hægt verði að klára viðgerðirnar á kirkjunni.

Víst er að óvíða hefur svo fámennur söfnuður staðið í slíkum stórræðum sem Súgfirðingar og fyrirséð er að þeir muni klára það með sóma.

DEILA