Strandabyggð: uppsögn sveitarstjóra kostar um 4 m.kr.

Kostnaður Strandabyggðar vegna uppsagnar Þorgeirs Pálssonar, sveitarstjóra kostar sveitarfélagið um 4 m.kr. Greiddur verður þriggja mánaða uppsagnarfrestur og vinnuframlag afþakkað. Laun sveitarstjóra eru um 1.200 þúsund krónur á mánuði.

Jón Gísli Jónsson, oddviti segir sveitarstjórn standa saman að uppsögninni. Hann segir að ekkert eitt mál hafi orðið til þess að gripið var til uppsagnar heldur hafi samstarfið verið að þróast til verri vegar. Jón Gísli segir að ekki sé um brot í starfi að ræða. Ekki er búið að ákveða framhaldið og tekur sveitarstjórnin sér nokkra daga til þess að komast að niðurstöðu.