Stöndum saman Vestfirðir – næsta söfnun er heyrnarmælir

Fram kemur á facebook síðu Stöndum saman Vestfirðir að hafin er ný söfnun.

Nú skal safna fyrir heyrnamæli þar sem á svæðinu er komin til starfa heyrnafræðingur.

Eftirfarandi kemur fram á Stöndum saman Vestfirðir:

“Það er frábært fyrir svæðið okkar að fá svona öfluga sérþekkingu. Í dag er það svo að þegar börn fæðast þá fara þau í heyrnamælingu, eða við þriggja daga skoðun og er sú mæling gerð með sérstökum mælum. Þessi mælir er ekki til hér á svæðinu en er til á höfuðborgarsvæðinu og kemur í lán út á land í nokkur skipti á ári. Því er það svo að börn hér á svæðinu þurfa, oftar en ekki, að fara suður til að sækja þessa mikilvægu mælingu. Rannsóknir sýna að fyrsta aldursárið er mikilvægt þroskatímabil hvað varðar máltöku barna. Það er mjög erfitt að skynja eða geta sér til um hvort lítið barn er með skerta heyrn. Þess vegna greinist heyrnarskerðing hjá börnum oft seint. Nýleg íslensk rannsókn bendir til þess að greiningaraldur hér á landi sé óvenju hár, eða um sex ára. Því fyrr sem heyrnarskerðingin greinist, þeim mun meiri möguleikar eru til þess að hjálpa barninu. Flestir fullorðnir fara í þessar “venjulegu” heyrnamælingar, en þennan mæli er líka hægt að nota fyrir fullorðna til að mæla heyrn.“

Því skella Stöndum saman Vestfirðir í þessa mikilvægu söfnun og safna fyrir öflugum og góðum heyrnamæli. Heyrnamælirinn kostar um 2 milljónir króna.

Söfnunin er unnin í samráði við heyrnafræðinginn sem og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og tækið mun verða gefið Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

Allar frekari upplýsingar má nálgast á facebook síðu Stöndum saman Vestfirðir

DEILA