Sókn fyrir námsmenn: Sumarnám og sumarstörf 2021

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra kynna verkefnið

Fjölbreytt sumarnám og sumarstörf verða í boði fyrir ungt fólk og atvinnuleitendur í sumar, sem lið í aðgerðum stjórnvalda til þess að stuðla að virkni og framtíðarsókn fyrir íslenskt atvinnulíf.

Stjórnvöld hyggjast veita alls 650 milljónum kr. til að tryggja framboð á sumarnámi í sumar; 500 milljónir kr. renna til í háskóla og 150 milljónir kr. til framhaldsskóla. Sumarnámið árið 2020 nýttist mörgum vel og spornaði við atvinnuleysi. Fjölbreyttar námsleiðir voru í boði og sóttu rúmlega 650 nemendur námskeið á vegum 10 framhaldskóla og tæplega 5000 nemendur um 260 námskeið á vegum háskólann.

Stjórnvöld ætla með þessu að ná til þess hóps námsmanna sem ekki fær starf eða aðgang að öðru úrræði í sumar og munu verja tæpum 2,4 milljörðum kr. í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn.

Markmiðið er að með átakinu verði til um 2.500 tímabundin störf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri, í samvinnu við opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök. Hverjum nýjum námsmanni sem ráðinn er inn með úrræðinu fylgir styrkur sem nemur fullum dagvinnulaunum samkvæmt gildandi kjarasamningum, en mest að hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta, allt að 472 þúsund kr. á mánuði auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð. Ráðningartímabilið er allt að tveir og hálfur mánuður.

DEILA