Söfnun fyrir nýju hljóðkerfi í Ísafjarðarkirkju

Ísafjarðarkirkja. Mynd: Ísafjarðarkirkja.

Sóknarnefnd Ísafjarðarkirkju hefur hafið söfnun til að endurnýja hljóðkerfi kirkjunnar. Frá vígslu kirkjunnar fyrir 25 árum hefur verið kvartað yfir því að talað mál skili sér illa til áheyrenda víða í kirkjunni. Reynt hefur verið að betrumbæta hljóðkerfið sem upprunalega var í kirkjunni með því að bæta við hljóðnemum og hátölurum en það hefur því miður ekki skilað viðunandi árangri. Nú hefur sóknarnefnd fengið tilboð í endurnýjun hljóðkerfis kirkjunnar frá grunni. Með nýju hljóðkerfi á að vera tryggt að talað mál og tónlist muni heyrast vel um alla kirkju og að þeir sem farnir eru að tapa heyrn njóti þeirra athafna og viðburða sem þar eru haldnir til jafns við aðra.

Heildarkostnaður nýs hljóðkerfis, með vinnu við uppsetningu, er tæpar tvær milljónir króna.

Því miður er fjárhagur kirkjunnar á þann veg að tekjurnar (sóknargjöld) rétt duga fyrir föstum kostnaði og því hefur kirkjan ekki fjárhagslegt bolmagn til að fara í þessar framkvæmdir án utanaðkomandi fjárstuðnings. Leitað er því eftir stuðningi frá fyrirtækjum, hópum og einstaklingum í bænum fyrir þetta verkefni. Öll framlög, stór eða smá eru vel þegin. Söfnunarreikningur er 0556-14-100340 og kennitala kirkjunnar er 660169-6959.

DEILA