Skrifað undir verksamning um þverun Þorskafjarðar

Forstjóri Vegagerðarinnar og framkvæmdastjóri  Suðurverks hf. rituðu undir verksamning um þverun Þorskafjarðar á Vestfjarðavegi (60) um Gufudalssveit í dag, fimmtudaginn 8. apríl. Verkið felur í sér þverun Þorskafjarðar og er liður í lúkningu umfangsmikillar vegagerðar á sunnanverðum Vestfjörðum undanfarin ár. Suðurverk hf. átti lægsta tilboðið í verkið.

Frá þessu er greint á vefsíðu Vegagerðarinnar.

Tilboð voru opnuð 16. febrúar 2021 en um er að ræða nýbyggingu Vestfjarðavegar á um 2,7 km kafla yfir Þorskafjörð. Innifalið í verkinu er bygging 260 m langrar steyptar brúar á Þorskafjörð. Ber verki heitið Vestfjarðavegur (60) um Gufudalssveit, Kinnarstaðir – Þórisstaðir.

Suðurverk hf. átti lægsta tilboðið upp á 2.078.354.246 krónur.

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar sagði við undirskriftina að það væri fagnaðarefni að fara í þessa framkvæmd og að nú hyllti undir lok á viðamiklum vegaframkvæmdum á sunnanverðum Vestfjörðum. Hún benti á að með gerð Dýrafjarðarganga, vegi um Gufudalssveit og þverun Þorskfjarðar styttist leiðin milli Ísafjarðar og Reykjavíkur um 50 km og munaði um minna. Þverun Þorskafjarðar ein og sér styttir vegalengdina um 10 km.

Dofri Eysteinsson framkvæmdastjóri Suðurverks hf. var einnig ánægður með verkið og leist vel á, hann benti á að Suðurverksmenn þekktu gjörla til svæðisins og fjarðaþverana en þeir hefðu þverað Dýrafjörð árið 1989 og síðar Kjálkafjörð og Miðfjörð á sunnanverðum Vestfjörðum. Hann sagðist hlakka til verksins sem hæfist strax í næstu viku.

Áætlað er að útlögn fyllingar/fargs verði lokið í lok júní á þessu ári en að smíði brúar og frágangi við hana verði lokið í lok september á næsta ári. Verkinu öllu á síðan að ljúka í júní 2024.

Verktíminn er rúm þrjú ár sem skýrist af því að fergja þarf botn fjarðarins sem er tímafrekt ferli. Vegurinn þarf þannig að síga áður en hægt verður að ganga frá honum í rétta hæð. Fergingu verður skipt í tvo áfanga til að loka firðinum ekki of mikið í einu, m.a. til að vernda marhálm á svæðinu og til þess að takmarka straumhraða og botnrof.

Þó fjörðurinn sé fremur grunnur fer talsvert efni í fyllingu og grjótvörn. Efnið verður fengið úr skeringum beggja vegna fjarðarins og úr nálægri námu.

Myndir: Vegagerðin.

DEILA