Landsréttur staðfestir frávísun héraðsdóms. Rekstrarleyfi fyrir laxeldi ekki ógilt

Seiðaeldisstöð Arctic Fish í Tálknafirði.

Landsréttur felldi þann dóm á mánudaginn að staðfesta frávísun Héraðsdóms Reykjavíkur á kröfu Látrabjargs ehf og Karls Eggertssonar og SigríðarHuldar Garðarsdóttur um ógildinu á rekstrarleyfi Arctic Fish fyrir laxeldi í Patreksfirði og Tálknafirði.

Héraðsdómur hafði þann 1. mars vísaði kröfunni frá dómi með þeim rökum að rekstrarleyfið hefði ekki valdið kærendum neinu tjóni og því hefði það enga þýðingu fyrir þá að fella leyfið úr gildi. Ástæða kærunnar væri eingöngu að kærendur vildi ekki laxeldið og án þess að sýna fram á tjón eða að minnsta kosti halda því fram að tjón hafði orðið vegna laxeldisins væri ekki hægt að gera kröfu til dómstóla um að úrskurða um gildi leyfisins.

Landsréttur tekur að öllu leyti undir niðurstöðu Héraðsdóms í dómsorðinu:

„Þá verður ekki séð að sóknaraðilar geti að réttu lagi talist hafa nokkra lögvarða hagsmuni af því að rekstrarleyfi varnaraðilans Arctic Sea Farm hf. til sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði verði fellt úr gildi. Samkvæmt því er staðfest niðurstaða héraðsdóms um að vísa málinu frá dómi.“

Kærendur voru dæmdir til að greiða Arctic Fish og Matvælastofnun, sem gefur út leyfin, 250 þúsund krónur hvorum um sig í málskostnað. Bætist það við 1,2 m.kr. sem Héraðsdómur dæmdi kærendur til að greiða í málskostnað.

Sömu kærendur stefndu Arnarlaxi fyrir dóm vegna rekstrarleyfis fyrir laxeldi í sömu fjörðum og hefur það mál fengið sömu niðurstöðu.

Rekstrarleyfin fyrir laxeldi í Tálknafirði og Patreksfirði standa því óhögguð.

DEILA